top of page
Writer's pictureBerglind Ósk Magnúsdóttir

Hver eru fyrstu skrefin að komast út úr streitástandi og róa taugakerfið?

Updated: Nov 29, 2023




Streita og álag einkennir líf allt of margra og oftar en ekki án þess að þeir gera sér grein fyrir því. Næringarlaust mataræði (yfirleitt allt of miklar kaloríur sem gefa okkur enga næringu), mikil streita og kyrrseta – er engan veginn leiðin að heilbrigðu og gefandi lífi. Þetta verður að vítahring sem margir eiga erfitt með að koma sér út úr.


En hver eru fyrstu skrefin?


Góður svefn og heilbrigðir þarmar!


Stundum þurfum við að byrja frá grunni og taka lítil skref. Það tekur oft tíma og þolinmæði. Það eru alltof margir sem sem hafa allt of litla þolinmæði. Þegar kemur að heilsu þá er þolinmæði og þrautseigja sem virkar. Engar skyndilausnir. Því þarf að plana hlutina og halda sig við efnið (já - dag eftir dag og ár eftir ár).


Það eru tvö atriði sem mundi gjörbreyta lífi margra – góður svefn og heilbrigðir þarmar.


Svefn


Það er alltaf að koma betur fram hversu svefn er okkur mikilvægur. Hér koma niðurstöður og vangaveltur úr nokkrum nýlegum rannsóknum:


  • Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að það sé samhengi á milli fituprósentu og lengd svefns. Það virðist vera að þeir sem sofa lítið séu oft með hærri fituprósentu.

  • Svefnleysi virðist auka hungur, sérstaklega þegar einstaklingar eru að reyna að minnka kaloríur yfir daginn. Þegar verið er að grenna sig þá er því mikilvægt að fá nægan svefn.

  • Svefnleysi gerir okkur erfitt að leysa vandamál.

  • Svefnleysi og léleg svefngæði eykur líkur á efnaskiptaheilkennum (e. metabolic syndrome) eins og insúlínþol, háþrýstings og offitu. Þeir sem eru í mestri hættu eru þeir sem sofa um 5-6 klst. á nóttu og einnig þeir sem sofa að jafnaði 8-9 klst. á nóttu. 7-8 klst. svefn á nóttu virðist koma best út. Hér skal taka fram að hér er ekki verið að tala um íþróttafólk og aðra sem stunda mikla hreyfingu (vegna vinnu eða íþrótta). Þeir geta vel þurft meira en 8 klst. svefn.

  • Svefn hefur mikil áhrif á insúlín. Ef heilbrigður einstaklingur er svefnlaus í eina nótt (sefur kannski 4 klst) eykst insúlínóþol hans töluvert. Með auknum svefn er einnig hægt að bæta ástandið.


Melting – heilbrigðir þarmar


Góð melting er gríðarlega mikilvæg. Þegar allt er í góðu standi þá líður okkur svo miklu betur. Meltingin er mikilvæg fyrir upptöku næringarefna og góð melting er nauðsynleg fyrir gott ónæmiskerfi. Hún hefur einning mikil áhrif á almenna heilsu okkar og sjúkdóma.


Breyting á þarmaflórunni og meltingunni getur þýtt breytingu á því hvernig líkaminn berst gegn sýkingum og hvernig hann nær að vinna næringu úr matnum okkar.


Melting og þarmaflóran hefur mikil áhrif á okkar lífsgæði.


Þarmaflóran okkar breytist í gegnum lífið. Þegar við fæðumst þá fæðumst við með okkar einstöku þarmaflóru. Hvað við fáum að borða, hversu mikið af sýklalyfjum við fáum og hversu mikinn sand við náum að stinga upp í okkur – hefur allt áhrif á þarmaflóruna okkar, ásamt mörgu öðru.


Í gegnum árin náum við að styrkja góðu gerlana með t.d. grænmeti, ávöxtum, baunum og hnetum og á nammidögum gefum við ,,slæmu gerlunum” veislu með öllu sælgætinu sem við borðum. Lífstíllinn okkar gegnir lykilhlutverki þegar kemur að meltingunni. Sjúkdómar í tengslum við meltingu og þarmaflóruna eru fjölmargir og því mikilvægt að gefa meltingunni sérstaka athygli.


Þegar líkaminn og taugakerfið er komið í þrot þá eru fjöldinn allur af verkfærum sem við getum notað til að koma okkur í fyrra horf. Við þurfum að passa að okkur vanti engin vítamín eða steinefni. Við þurfum að huga að okkar félagslífi, hlátur getur gert kraftaverk. Við þurfum að hreyfa okkur, anda að okkur tæru lofti. Borða til að næra líkamann, ekki til að uppfylla stundaránægju.


En stundum, þá verðum við að staldra við og byrja frá grunni. Góður svefn og heilbrigð melting getur verið lykillinn sem þig vantar einmitt núna.


0 comments

Comments


bottom of page