top of page

Girnileg fersk aspassúpa


Aspas hefur lengi verið vinsæl fæðutegund víða um Evrópu og þegar aspastímabilið hefst, þá fyllast verslanir af ferskum aspas og áhöldum til að meðhöndla hann rétt. Hér áður fyrr þekktum við Íslendingar aspasinn bara í dósum en sem betur fer þá er ferskur aspas orðinn vel þekktur á Íslandi og hafa vinsældir hans aukist mikið.


Þar sem aspas inniheldur mikið af B- vítamínum og þá sérstaklega fólati, þá er hann einstaklega góður fyrir konur á barneignaaldra ásamt þeim sem þjást af hjarta- og æðasjúkdómum. Einnig er aspas trefjaríkur og því góður fyrir meltinguna.


Uppskriftin inniheldur súpu fyrir ca. 4:


2 msk. extra-virgin ólifu olía

2 stk. púrrulaukur, meðalstórir, græni toppurinn skorinn af og laukurinn skorinn í bita

2 stk. gulrætur, afhýddar og skornar í bita

3 stk. hvítlauksgeirar, pressaðir

1 tsk. sjávarsalt, fínmalað

4 bollar grænmetissoð, heimagert eða keypt

1 búnt ferskur grænn aspas (einnig hægt að nota úr dós), endar skornir af og skorinn í bita

2 stk. kúrbítar (nema hann sé mjög stór, þá er eitt stk. nóg), endar skornir af og skornir í bita

100 gr. chévre geitaostur (getur notað 2 msk af tahini í staðinn ef þú vilt hafa súpuna vegan og lausa við glúten).

1 msk. límónusafi (eða meira, eftir smekk)

1/4 tsk. ferskur svartur pipar (eða meira, eftir smekk)  • Hitið olíuna í stórum potti á miðlungs hita. Bætið púrrulauk, gulrótum, hvítlauk og salti og látið malla í u.þ.b 5 mínútur eða þangað til örlítill brúnn litur er kominn á grænmetið.


  • Bætið við grænmetissoði, aspas og kúrbít. Hækkið hitann og látið sjóða. Lækkið hitann síðan alveg niður og látið malla á lágum hita þar til allt grænmetið er orðið mjúkt, í u.þ.b. 15 mínútur. Slökkvið á hitanum og bætið við geitaostinum, límónusafanum og piparnum.

  • Ef þú átt töfrasprota, notaðu þá hann til að blanda öllu saman í pottinum, þar til súpan er alveg mjúk. Einnig er hægt að láta súpuna kólna örlítið og setja hana síðan í blandara þar til hún er alveg mjúk (passið bara að blandarinn þoli hitann af súpunni).


  • Bætið við salti, pipar og límónusafa ef ykkur finnst þörf á því.

0 comments

Comments


bottom of page