top of page

Viltu fá meira út úr göngutúrunum? Brjóttu upp rútínuna og fáðu sem mestan ávinning!



Ganga og góðir göngutúrar eru ekki bara góðir fyrir sálina heldur eru þeir frábær heilsurækt sem nær allir geta stundað. Þú þarft bara góða skó, fatnað við hæfi og þú ert tilbúin.


Eins og aðrar þolæfingar þá er ganga góð fyrir hjartað, styrkir ónæmiskerfið og hjálpar þér að halda aukakílóunum í fjarlægð. En eins og það er nú gott að skella sér í rólegan göngutúr, og er það mun betra en enginn göngutúr, þá er enn betra að láta þá vera örlítið krefjandi svo við fáum sem mest út úr þeim.


En hvernig gerum við göngutúrana meira krefjandi (og skemmtilegri)?

Finndu þér markmið.


Hvað heldur okkur við efnið er mismunandi en fyrir flesta þá virkar vel að finna sér markmið. Markmiðin geta verið margvísleg en hér koma nokkur dæmi:


- Ganga Esjuna að steini, eftir 8 vikur á 90 mínútum, upp og niður.

- Ganga Laugaveginn eftir 3 mánuði á 5 dögum.

- Geta gengið í 20 mínútur samfellt eftir 4 vikur.

- Geta hlaupið 5 km samfellt eftir 2 mánuði.


Auktu álagið hægt og rólega.


Flestir ganga alltaf á sama hraðanum og oftar en ekki, sama góða gamla hringinn sinn. Þegar svo er, þá venst líkaminn því álagi. Því viljum við láta líkamann stundum finna fyrir meira álagi. Góð leið til að byrja með er að auka hraðann í ákveðinn tíma.


Smá dæmi:


Byrjaðu að ganga á þínum venjulega gönguhraða í 3-4 mínútur.

Auka svo hraðann í 30 sekúndur og taka síðan þá hvíld sem þú þarft til að ná hjartslættinum niður.

Endurtaka þessar 30 sekúndur tíu sinnum með þeirri hvíld sem þú þarft á milli.

Ganga síðan á þínum venjulega gönguhraða það sem eftir er af göngutúrnum.


Hægt og rólega ferðu að finna að þolið fer að aukast og þú getur aukið bæði hraðann og lengdina á ,,sprettunum”. Einnig muntu finna að þú þarft minni hvíld á milli.




Finndu þér brekkur.


Að ganga upp stiga eða upp brekkur er ekki bara frábært fyrir þolið heldur styrkir það einnig fæturna.


Ef þú ert í ræktinni þá skaltu ekki hika við að prufa stigavélina eða að stilla hlaupabrettið á töluverðan halla á milli þess sem þú gengur rösklega á brettinu.


Ef þú ferð í göngutúr, reyndu að finna þér góða brekku inni á milli. Það er alltaf hægt að taka sér pásu á leiðinni upp. Einnig er ekkert að því að snúa bara við og reyna að fara lengra í næstu ferð.


Prufaðu að fá þér stafi.


Þegar þú gengur með stafi þá reynir það ekki bara á þolið og fæturna, heldur fá hendur, bak, kviður og axlir einnig part af ávinningnum. Til að hafa orku og getu til að ganga sem mest þá er mikilvægt að allur líkaminn hafi þann styrkleika sem þarf til þess. Ef þú ert ekki mikið fyrir að gera styrktaræfingar þá er stafaganga frábær kostur.



Niðurstaðan er að göngutúrar eru frábærir fyrir heilsuna en líkaminn venst fljótt álaginu. Það er því mikilvægt að brjóta upp rútínuna með meiri ákefð og álagi. Síðan er gott að nota hugmyndaflugið og finna nýja skemmtilega staði til að ganga á. Það er ekki bara gott fyrir líkamann heldur einnig minnkar það líkurnar á leiða.


Gott er samt að hafa í huga að allir göngutúrar þurfa ekki að vera í hámarks ákefð og stundum er gott að rölta um rólega.


Aðal málið er að hlusta á líkamann: taka vel á því þegar þú hefur orkuna til þess og hvíla þegar þú finnur að líkaminn þarf á því að halda.

0 comments
bottom of page