Þegar talað er um kulnun, þá er yfirleitt talað um kulnun í starfi. En það eru samt margir aðrir þættir sem koma þar inn í eins og álag á heimili, veikindi aðstandanda eða of mikil hreyfing þegar líkaminn ætti frekar að vera að hvíla.
Samkvæmt könnun Gallup í Bandaríkjunum árið 2020 þá upplifuðu 48% einstaklinga kulnun í starfi reglulega og 21% alltaf. Að vera stressaður, þreyttur eða kvíðinn út af vinnu er ekki óalgengt en kulnun getur valdið bæði líkamlegum og sálrænum veikindum. Einstaklingar sem upplifa kulnun eru 63% líklegri að taka veikindadag í vinnu og 23% líklegri að þurfa að leita til neyðarmótu á sjúkrahúsi. Starfsfólk sem upplifir kulnun er einnig líklegra að standa sig verr í vinnunni en samstarfsmenn þeirra. Þeir eru t.d ólíklegri að leita til yfirmanns eftir aðstoð og þeir hafa töluvert minna sjálfstraust í vinnunni. Einnig eru þeir þrisvar sinnum líklegri að hætta í vinnunni en samstarfsfélagar þeirra.
Kulnun er í raun bæði líkamleg og andleg veikindi með þeim afleiðingum að einstaklingar finna fyrir minni starfsánægju og afköst þeirra minnka. Ástæða kulnunar er margþætt en fyrst og fremst er talið að langvarandi streita sem ekki hefur verið tekið á, sé helsta ástæðan. Margir streituvaldar eru á vinnustöðum. Miklar og óraunhæfar kröfur er einn helsti streituvaldurinn. Þeir sem eru undir stöðugu eftirliti yfirmanns um stöðuga framleiðni sem er jafnvel óraunhæf, eru í mun meiri hættu að upplifa kulnun en aðrir. Annar áhættuvaldur eru illa skilgrein störf og samskiptaleysi. Starfslýsingar eru oft illa gerðar og í engu samræmi við raunverulegt starf. Þegar starfsmaður veit ekki til hvers er ætlast af honum, myndast oft stirðleiki og streita og væntingar verða óraunhæfar. Einnig eru þeir starfsmenn í aukinni áhættu sem telja sig ekki fá þá aðstoð og skilning frá yfirmanni sínum sem þeir þurfa. Samviskusamir starfsmenn sem vilja gera hlutina vel og þeir sem eru óöryggir og örlítið taugaveiklaðir og fá ekki stuðning frá yfirmanni eru í sérstakri áhættu.
Það er í rauninni ekki langt síðan við forum að ræða um kulnun. En það þýðir ekki að þetta sé nýtt ástand. Fræðimenn byrjuðu í kringum 1970 að skoða þessi einkenni hjá heilbrigðisstarfsfólki en í dag er löngu vitað að kulnun getur komið upp í öllum stéttum og stöðugildum þjóðfélagssins. Margar rannsóknir hafa nú verið gerðar á kulnun en það getur verið erfitt að bera þær saman því við lifum svo mismunandi lífi og upplifum hlutina á svo mismunandi hátt.
Þó svo einkennin breytist reglulega eftir breyttum tíðaranda þá eru fræðimenn sammála um að einkennin í dag séu eftirfarnandi:
· Þreyta og uppgjöf sem erfitt er að hrista af sér.
· Almennt áhugaleysi sem kemur fram eins og skipulagsleysi og gleymska.
· Pirringur.
· Kvíði og/eða þunglyndi.
· Svefnleysi, gnístingur tanna.
· Höfuðverkur.
· Magaverkur og/eða meltingatruflanir.
· Hærri hvíldarpúls en venjulega.
· Karlar auka áhættu á hjartasjúkdómum.
· Konur auka líkur á vöðvaverkjum.
· Rannsóknir hafa margoft sýnt að streita getur gert okkur líkamlega veik. Krónískt og langvarandi stress getur ýtt undir áhættu á hjartasjúkdómum, sýkingum, sykursýki 2 og ófrjósemi.
Hvernig hefur kulnun áhrif á áhugamál okkar og samskipti við aðra?
Þeir sem upplifa kulnun sýna oft einkenni þunglyndis og í slæmum tilfellum verður þunglyndið mjög mikið. Þeir sem eru þunglyndir missa oft áhuga á áhugamálum sínum og því sem þeim fannst skemmtilegt og mikilvægt áður. Hlutir sem veittu gleði áður, verða minna spennandi og jafnvel bara ekkert skemmtilegir. Þetta gerir þeim erfiðara fyrir og verður að vítahring sem erfitt er að komast úr.
Eins og kom fram áður, þá eru þeir sem upplifa kulnun oft pirraðir og illa fyrirkallaðir. Þeir eru því líklegri að lenda í átökum á vinnustað. Ástandið í vinnunni getur auðveldlega haft áhrif á ástandið á heimilinu. Góð samskipti á heimilinu getur hjálpað þeim sem upplifir kulnun og gefið honum styrk til að vinna sig úr erfiðum aðstæðum. Samskipti á vinnustað við samstarfsfólk og þá sérstaklega yfirmann eru einnig mjög mikilægt. Jákvæð og uppbyggjandi samskipti auka bæði starfsánægju og drifkraft.
Og hvað er hægt að gera?
Það þurfa allir að átta sig á því að kulnun er ástand sem getur verið mjög alvarlegt. Kulnun er ekki aumingjaskapur heldur ástand sem nauðsynlegt er leita sér hjálpar áður en ástandið verður of slæmt.
Einstaklingar verða að staldra við reglulega og taka stöðuna hjá þeim sjálfum.
Hvernig líður mér?
Hvernig er svefninn minn?
Er ég að ná að halda utan um öll mín verkefni og allt sem ég vil gera?
Er ég að forgangsraða verkefnum rétt?
Hvernig er andlega heilsan mín? Er ég búin að vera pirruð? Uppstökk? Fer allt í taugarnar á mér?
Hvernig er líkamlega heilsan? Er ég að þyngjast? Er blóðþrýstingurinn að hækka? En hjartslátturinn?
Fyrirtæki verða einnig að staldra við og taka stöðuna hjá sér.
Hver er starfsmannaveltan hjá okkur?
Er starfsfólkið okkar alltaf að nýta alla veikindadaga?
Er starfsólkið að nýta sér fríið sitt?
Eru stjórnendur og millistjórnendur góðir í mannlegum samskiptum (eða bara góðir sölumenn að koma sér áfram)?
Er starfsfólkið okkar að fá þau tæki og tól sem það þarf til að sinna sínu starfi vel?
Veit starfsfólkið okkar hvað það á að gera dags daglega og til hvers er ætlast af þeim?
Er starfsfólkið okkar ánægt í vinnunni?
Kulnun snýst að mörgu leiti um samskipti. Verum hreinskilin við okkur sjálf og aðra. Komum fram við aðra með virðingu og sýnum skilning að við erum öll svo ólík.
Comentários