top of page

Er hægt að minnka einkenni breytingaskeiðsins með mataræði? Getur fitulítið vegan mataræði, ríkt af sojavörum - minnkað eða útrýmt - einkennunum?


Vegan mataræði er ríkt af vítamínum og steinefnum
Vegan mataræði er ríkt af vítamínum og steinefnum

Hitakóf eru algengir fylgikvillar breytingaskeiðsins en mjög mismunandi eru hversu mikil hitakófin eru og hversu lengi þau standa yfir. Einnig eru konur sem sleppa algjörlega við þau.


Hvers vegna er svona mikill munur á því hvernig við konurnar upplifum breytingaskeiðið?


Margar rannsóknir hafa gefið okkur vísbendingar að konur frá Vesturlöndum þjáist frekar af fylgikvillum breytingaskeiðsins en t.d. konur frá Asíu. Að sjálfsögðu hefur það vakið athygli og þá hafa rannsakendur sérstaklega horft til mataræðisins.


Hér fyrir neðan mun ég segja frá einni rannsókn sem var gerð á 38 konum sem voru að ganga í gegnum breytingaskeiðið. Allar upplifðu þær tvö eða fleiri hitakóf á dag.


Þeim var skipt í tvo hópa. Annar hópurinn borðaði hefðbundið vestrænt mataræði (hélt áfram með sitt fæði) og hinn hópurinn borðaði vegan fæði sem var fitulítið og innihélt a.m.k hálfan bolla af elduðum sojabaunum á dag. Rannsóknin stóð yfir í 12 vikur og í hverri viku var farið yfir hvað hver og ein borðaði, þær fóru í ýmsar mælingar (t.d vigtun, fitumæling og þh), farið var yfir hversu mikið þær hreyfðu sig og fyrir hvaða einkennum breytingaskeiðsins þær fundu fyrir. Allar konurnar fengu 100 mg af B12 vítamíni (nauðsynlegt fyrir þá sem eru vegan).


Niðurstöðurnar voru að þrátt fyrir að konurnar gerðu engar breytingar á hreyfingu þá léttist vegan hópurinn að meðaltali um 3.5 kg en hinn hópurinn þyngdist um 0.8 kg. Vegan hópurinn fann mun minna fyrir einkennum hitakófsins eða um 80% og eftir rannsóknina var um 60% sem fann ekki fyrir neinu hitakófi eða svo lítið að það truflaði þær ekki neitt. Einnig voru margir aðrir kvillar sem tengjast breytingaskeiðinu sem urðu mun betri.


Þessi rannsókn segir okkur að mataræðið skiptir mjög miklu máli fyrir konur á breytingaskeiðinu. En taka skal samt fram að þessi rannsókn var alls ekki fullkomin og því ekki útkoman alveg 100%. Einnig skal taka fram að skilgreiningin á vestrænu mataræði er mataræði sem inniheldur mjög mikið af sykri og óhollri fitu - mjög slæm blanda fyrir konur á öllum aldri.


Í rannsókninni var vegan hópurinn látinn borða hálfan bolla af elduðum sojabaunum á hverjum degi. Margar rannsóknir styðja að soja baunir (og afurðir sojabaunarinnar) hafa mjög góð áhrif á konur sem eru að ganga í gegnum breytingaskeiðið. Það hefði því verið áhugavert að sjá niðurstöðurnar ef þær hefðu ekki borðað svona mikið af sojavörum.


En hvort sem við erum vegan eða ekki þá er mikilvægt að mataræði okkar innihaldi mikið af grænmeti og ávöxtum. Temmilega mikið af hollri fitu og nóg af prótíni. Einnig er mikilvægt að lágmarka sykur og mikið unnar matvörur. Okkur mun alltaf líða betur af slíku mataræði, hvort sem við erum að ganga í gegnum breytingaskeiðið eða ekki.

Comments


bottom of page