Í nútíma samfélagi uppfullu af hraða, kröfum og áreiti, eru streitutengdir sjúkdómar vaxandi vandamál. Einstaklingar verða þó sífellt meðvitaðri um þær alvarlegu afleiðingar sem langvarandi streita getur valdið og notfæra sér ýmsar aðferðir í amstri dagsins til að finna innri ró og vellíðan og draga um leið úr líkum á alvarlegum sjúkdómum. Austrænar aðferðir til að koma jafnvægi og ró á lífið hafa verið stundaðar í hinum vestræna heimi um þó nokkurt skeið en hafa aldrei átt jafn miklum vinsældum að fagna og einmitt núna. Framboð af ýmsum gerðum Yoga og hugleiðslu hefur stór aukist og jafnvel er farið að bera nokkuð á notkun mantra og möntrutónun.
Mantran OM
Mantran „om“ er af mörgum talin vera áhrifaríkust allra mantra og stendur hún fyrir tákni Guðs í Upanishad ritunum. Upanishad er partur af Veda bókunum sem eru helstu trúar- og heimspekirit Hindúa (Chinmayanada Swami, 2002.)
Mantran OM er eitt helgasta táknið í mörgum trúarbröðum ættuðum í og við Indland eins og Hinduisma, Búddisma, Jainisma og Sikhisma. Það er notað sem tákn og hljóð í fjölmörgum trúarlegum athöfnum og er því jafnan haldið fram að OM hafi guðlegan uppruna og tónn þess sé inntakið í öllu því sem er (Ray J. Rousseau, 2014). Om-ið táknar því allt sem var, er og verður. Það er alheimsvitundin og um leið okkar æðra sjálf og okkar innsti kjarni (Amit Ray, 2010).
Við tölum almennt um OM en mantran er þó samsett úr þremur bókstöfum A, U, M sem standa fyrir fortíð, nútíð og framtíð og þýðir "hin æðsta vitund" (Sivanda Swami, 2005). Þegar bókstafirnir A og U eru settir saman á Sanskrit myndast hljóðið O (Amit Ray, 2010). Hljóðið OM skiptist í fjóra hluta. Bókstafina AUM og þögnina eftir hljóðið. Þessir hlutar tákna fjögur stig mannlegs lífs, þ.e vaka, draumur, djúpsvefn og sjálfið. Það gefur dýpri innsýn í möntruna að rýna ögn í táknið fyrir hana. Hlutar táknsins sem líkjast "3" og "o" tákna þrjú stig hins mannlega hugar og þróun hans frá blindni til fullkomins skírleika. Hálfhringurinn táknar það sem aðskilur þessi stig frá punktinum sem stendur fyrir hinu sanna sjálfi (Jai Paul Dudeja, 2017).
Mynd 1. Táknið OM sýnir mismunandi vakningarstig mannsins, frá fáfræði til vakningar (Mynd úr safni höfundar).
Mantran OM er ekki bara tákn, ekki bara hljóð eða víbringur, heldur er sagt að OM sé allt innan skynjunar okkar og einnig allt sem er utan við skynjun okkar. Fyrsta orka veraldar og fyrsta hljóðið sem heyrðist við sköpun alheimsns. Frumhljóðið, sem hvorki er bundið við tíma eða rúm og er eilíft. Om táknar hamingju, frið, kærleika, lífsneista, hreinleika og fullkomnun. Om er flæði lífsorkunnar og táknar allt það jákvæða í veröldinni (Jai Paul Dudeja, 2017).
Rannsóknir á möntrunni OM
Mantran OM vekur sífellt meiri athygli og rannsóknum á virkni hennar fjölgar ört. Enn sem komið er beinast flestar rannsóknir á möntrunni gagnvart áhrifum hennar á streitu og álag. Samkvæmt Ray (2010), kyrrar það hugann að tóna OM og eyðir allri innri baráttu. Það kyrrar hugann og iðkandinn finnur sinn innsta kjarna og dvelur í fullkominni kyrrð.
Rannsakendur á Indlandi skoðuðu áhrif þess að tóna möntruna „OM“ á streitu og athygli. Átta kvenkyns kennarar á aldrinum 27-40 ára tóku þátt í rannsókninni. Kennararnir hófu hvern dag kl 6:00 að morgni á að tóna „OM“ í hugleiðslusal skólans í tólf vikur undir handleiðslu jógakennara. Upplifun kennaranna á streytu var skráð eftir ákveðnum kvarða og einbeiting eftir viðbrðgðum þeirra við heyrn- og sjónrænu áreiti. Rannsóknin sýndi að athygli kennaranna og viðbragðsflýti jókst og verulega dró úr streitu þann tíma sem kennararnir hugleiddu og tónuðu OM. Rannsakendur mæla því með að almenningur æfi möntrutónun með Om því mantran er ekki flókin en afar áhrifarík og notkun hennar í tónun og hugleiðslu getur bætt andlega heilsu og almenn lífsgæði (Mishra o.fl, 2017). Ítarleg greining á möntrunni OM og áhrifum hennar var gerð af Gurjum o.fl (2008) sem sýndi að athyglisgáfa þátttakenda jókst og varð sterkari með sí endurtekinni tónun á möntruni. Þátttakendur voru bæði konur og karlar sem hugleiddu með OM í tíu mínútur í senn fyrir kvöldmat. Mæld voru viðbrögð heilans hjá þátttakendum fyrir hugleiðslu, á meðan á hugleiðslu stóð og eftir hugleiðslu með breytileika í bæði tíðni og tóntegund. Eftir því sem leið á hugleiðsluna kom meira jafnvægi og stöðugleiki á heilaritin og ályktuðu rannsakendur að tónun á möntrunni OM stuðlaði að kyrrð og ró hjá iðkendum, væri öflugt gegn streitu og álagi og hefði líkamleg áhrif eins og slökun vöðva og dýpri og jafnari öndun (Gurjar og Ladhake, 2008). Öndun og hjartsláttur var einmitt viðfangsefni Telles o.fl (1995). Ósjálfráð öndun og hjartsláttur var skoðaður í sjö reyndum hugleiðendum með 5-20 ára reynslu af hugleiðsluiðkun. Annars vegar voru þessir þættir skoðaðir við hugleiðslu iðkenda með möntrutónun og hinsvegar með tæmingu hugans. Marktækur munur var á bæði hjartslætti og öndun á milli þátta þar sem möntrutónunin hægði á bæði hjartslætti og öndun og stuðlaði þar að aukinni líkamlegri slökun en töldu þátttakendur þó að á sama tíma og líkaminn varð slakari, varð hugurinn skarpari, meira vakandi og athyglin sterkari.
Rannsókn Jyoto Kori (2017) er enn ein rannsóknin sem sýnir jákvæð áhrif möntrutónunar á streitu. Í henni voru skoðuð áhrif möntrutónunar á púls og huga hjá nokkrum heilbrigðum sjálfboðaliðum. Þátttakendur tónuðu OMKARA í fimm mínútur daglega í fjórar vikur. Púlsinn var mældur fyrir og eftir tónun í hvert sinn og var útkoman undantekningalaust lægri púls eftir tónun. Að meðaltali lækkaði púlsinn um sex slög á mínútu eftir tónun og sýndi þar með merki um minnkandi streitustig við möntrutónun. Einnig vilja Kumar o.fl (2010) meina að rannsóknir þeirra hafi leitt í ljós að það sé enginn vafi á að hugleiðsla með Om dragi úr streitu, skerpi einbeitingu og rói hugann þannig að einstaklingurinn upplifir innri frið og jafnvægi. Niðurstöður Arati Amin o.fl (2016) eru einnig á svipuðum nótum. Þau rannsökuðu þau jákvæðu áhrif sem möntrutónun með OM hefur á þunglyndi, kvíða og streitu hjá fjörtíu konum á aldursbilinu 50 - 60 ára sem eiga það sameiginlegt að þjást af háþrýstingi. Þátttakendur tónuðu OM daglega kl 7:30 að morgni undir eftirliti fagfólks í sex mánuði. Eftir sex mánuði hafði slegið verulega á andleg einkenni þátttakenda þ.e þunglyndi, streitu og kvíða auk þess sem blóðþrýstingur hafði lækkað og hjartsláttatruflanir minnkað. Rannsóknin sýnir fram á að hægt sé að nota möntrutónun með OM á markvissan hátt til að róa órólegan huga, bæta minni og stuðla að skýrari hugsun (Amin o.fl, 2016). Þau Dwivedi og Singh (2016) taka í sama streng eftir ítarlega greiningu á hljóðinu OM. Þau telja einnig að sé mantran tónuð reglulega getur það endurstillt bæði líkamlegt, andlegt og tilfinningalegt jafnvægi einstaklinsgins. Það getur einnig aukið sköpunargáfu, líkamlega getu og starfsafköst auk þess að hafa jákvæð áhrif á rökhugsun, sjálfsvitund, einbeitingu og jákvæðni. Hið heilaga hljóð OM er einnig ákaflega mikilvægt í jóga ástundun og að mati Ivankovic (2017) er samsvörun með möntrunni ákveðið markmið í sjálfu sér í jóga iðkun. Hann á við að iðkandi nái að upplifa þá fullkomnu einingu sem OM-ið er þ.e "eitt er allt og allt er eitt". Om-ið er almennt notað bæði við öndunaræfingar og sem grunnmantra í hugleiðslu. Það er því mikilvægt að iðkandinn átti sig á að jóga er ekki bara kerfi líkamsæfinga heldur heildsteypt kerfi andlegrar, líkamlegrar og huglægrar þjálfunar með það að megin markmiði að auka andlega hæfileika mannsins og þróa þá til fullkomnunar.
Þó rannsóknir á möntrunni beinist fyrst og fremst að andlegum þáttum er einnig farið að bera á að skoðaðir séu líkamlegir þættir, þó aðallega að einkennum við algengum lífsstílssjúkdómum eins og streytu og hverskonar neysluvenjum. Að sögn Amin o.fl (2016) er hugleiðsla með möntrutónun ekki bara ein einfaldasta og árangursríkasta leiðin til að draga úr streitu, heldur hefur það einnig bein áhrif á taugakerfið og hjálpar til við að lækka blóðþrýstinginn með því að bæta blóðrásina.
Hinsvegar skoðuðu þau Kiran og Neeta (2017) hvort möntrutónun með OM hefði áhrif á fólk með skjaldkirtilsvandamál. Vitað er að stór hluti fólks býr við röskun á skjaldkirtli á einhverju stigi og lyfjameðferðir hafa gjarnan í för með sér ýmsar aukaverkanir. Tilraunin var því viðleitni til að finna náttúruleg meðferðarúrræði fyrir fólk með þennan vanda. Hljóðið mun hafa hámarksvirkni með örlitlum víbringi á tíðninni 432 Hz og best að notast við hrein A og O hljóð sem eru sérstaklega áhrifrík fyrir líkamann þar sem þau titra inn í bringu, háls og hnakka. Víbringur af völdum hljóðsins í bringubeininu örvar ónæmiskerfið vegna þess að bylgjurnar ná til tauga, eitla og skjaldkirtilsins. Rannsakendurnir telja að tónun á OM í 15-30 mínútur í senn sé sérlega áhrifaríkt og ein besta meðferðin gegn skjaldkirtilsvanda. Einnig telja þeir áhrifaríkt að spila möntruna OM yfir nótt og það hafi róandi áhrif á hugann ( Kiran og Neeta, 2017). Fleiri rannsakendur fjalla um þennan víbring sem myndast við tónun möntrunar og segja Nahas o.fl (2005) að flökkutaugin örvist (Nervus Vagus) við tónun möntrunar. Flökkutaugin er mjög löng taug sem sem liggur frá heila og í gegn um allan líkamann. Vegna þess hve hún er löng og gengur í gegn um líkamann hefur hún áhrif á marga þætti líkamlegrar virkni eins og öndunina, hjartslátt, meltinguna og taugakerfið. Sé flökkutaugin vanvirk hefur það ástand andleg og líkamleg einkenni í för með sér eins og t.d óreglulegan hjartslátt, viðvarandi verki, lélega meltingu, ristilvandamál, þunglyndi, andleysi, áhyggjur og kvíða. Með því að virkja þessa taug er því hægt að draga úr ýmsum einkennum og auka vellíðan (Streeter o.fl, 2012). Örvun hennar hefur einmitt reynst sérstaklega vel til meðferðar við þunglyndi (Nahas, 2005).
Ályktanir og lokaorð
Sé litið á þær rannsóknir sem hér er getið, og reyndar fleiri, má sjá að rannsakendur eru á einu máli um að áhrif þess að tóna möntruna OM eru jákvæð fyrir iðkandann. Það sem allar þær greinar sem leitað var fanga í eiga sameiginlegt er að þær koma allar inn á streitu með einhverjum hætti og telja nær allir rannsakendur að tónun með OM hafi jákvæð áhrif á streitu og einkenni sem rekja má til streitu, áreitis, álags og kvíða. Tónun með OM er einnig sögð hafa ýmsa aðra kosti og þeir algengustu eru: skýrari hugsun, aukna starfsorku, sterkari sjálfvitund, aukið jafnaðargeð, bætt blóðflæði og almennt bættari líðan.
Stærsti kosturinn við möntrutónun með OM er að það þarf hvorki kunnáttu né sérstaka tækni til að Om-a. Mantran flæðir um alla og það eina sem iðkandinn þarf að gera er að hefja tónunina og láta sig svo berast með þessu flæði alls sem er. Það tónar hver sitt OM á sinn hátt. Engin manneskja getur náð hinum fullkomna tón enda er það ekki aðal markmiðið heldur að hafa tónunina eins áreynslulausa og mögulegt er. Best er að stunda tónun á kyrrum stundum eins og snemma á morgnana. Þá er amstur dagsins ekki farið að ná tökum á okkur og við getum gefið tónuninni betur gaum. Hvenær dags er tónað er þó ekki aðal málið en æskilegt er að gera áætlun um hvar og hvenær iðkandi ætlar að iðka tónunina og hve lengi, og standa við þessa áætlun. Það er þó ekki talið æskilegt að tóna stuttu eftir máltíðir vegna þess að það getur hægt á brennslunni (Amit Ray, 2010).
Sé hægt að draga umtalsvert úr heilsufarsþáttum eins og streitu, kvíða og þunglyndi og hafa áhrif á ýmis líkamleg einkenni einnig, má segja að möntrutónun með OM sé lykilþáttur í bættum lífsgæðum, heilsu og velferð. Hugsanlega mætti innleiða þessa aðferð í heilbrigðiskerfið á einfaldan og ódýran hátt sem hliðar- og/eða eftirmeðferð fyrir fólk sem þjáist af erfiðum sjúkdómum eins og krabbameini eða einstaklinga með langvarandi sjúkdóma eins og vefjagigt með króníska verki síþreytu og heilaþoku. Kosturinn við þessa iðkun er að hún stendur öllum til boða því hún krefst hvorki sérþekkingar né fjármuna. Vissulega er gott að fá leiðsögn til að koma sér af stað en sé það ekki í boði er heilmikið efni sem gagn er af á veraldarvefnum m.a youtube.com. Í raun er það eina sem krefst til að ná árangri nægur agi til að viðhalda reglulegri iðkun. Annað kemur að sjálfu sér.
Heimildir
Amin A. O.fl. ( 2016). Beneficial effects of OM chanting on depression, anxiety, stress and cognition in elderly women with hypertension. Indian Journal of Clinical Anatomy and Physiology. 3(3); 253-255. http://oaji.net/articles/2016/1496-1476352100.pdf
Dudeja J. (2017). An Overview of Primordial, Apaurusheya, Perennial, Universal ‘OM’ Mantra and Its Scientific Analysis. International Journal of Current Trends in Science and Technology. 7 (9) : 20370-20390
Dwivedi M og Prof Singh K. (2016). Scientific analysis of Aum mantra in knowing Self. Research Gate. https://www.researchgate.net/publication/312153393.
Gurjar. A.A og Ladhake S. A. (2008). Time-Frequency Analysis of Chanting Sanskrit Divine Sound “OM” Mantra. International Journal of Computer Science and Network Security. 8 (8):170-175.
Ivanković M. (2017). The yoga and the sacred word Om (Aum). International Journal of Yogic, Human Movement and Sports Sciences. 2(1): 14-15 http://www.theyogicjournal.com/pdf/2017/vol2issue1/PartA/1-1-27-901.pdf
Kiran C, og Neeta K. (2017). Review on vibration frequency developed by OM chanting and its positive effects on thyroid. International Journal of Scientific Engineering and Applied Science (IJSEAS). 3 (5): 306-312. http://ijseas.com/volume3/v3i5/ijseas20170541.pdf
Kori J. ( 2017). Effect of chanting OMKARA mantra on pulse rate for stress reduction. International Journal of Advance Engineering and Research Development. 4 (7); 566- 571. http://ijaerd.com/papers/finished_papers/Effect%20of%20chanting%20OMKARA%20mantra%20on%20pulse%20rate%20for%20stress%20reduction-IJAERDV04I0719352.pdf
Kumar S, Nagendra R, Manjunath K, Naveen V, Telles S. (2010) Meditation on OM: Relevance from ancient texts and contemporary science. Int J Yoga. 3(1):2–5.
Mishra S. (2017). Beneficial effects of om chanting on perceived stress, auditory and visual reaction time in private school teachers. Int. J. Res. Ayurveda Pharm. 2017;8(2):79-81 http://dx.doi.org/10.7897/2277-4343.08269
Nahas Z, Marangell LB, Husain MM, Rush AJ, Sackeim HA, Lisanby SH O.fl. (2005). Two-year outcome of vagus nerve stimulation (VNS) for treatment of major depressive episodes. J Clin Psychiatry, 66 (10): 97-104.
Ray A. (2010). OM chanting and Meditation – A Way to Health and Happyness. Inner Light Publishers. New Brunswick: USA.
Swami S. (2005). A comprehensive treatise on Mantra-Sastra. A Divine Life Society Publication. Himalayas: India.
Streeter CC, Gerbarg PL, Saper RB, Ciraulo DA, Brown RP. (2012). Effects of yoga on the autonomic nervous system, gamma-aminobutyric-acid, and allostasis in epilepsy, depression, and post-traumatic stress disorder. Medical Hypotheses. 78 (5): 571-579
The institude of spiritual sciences - Rousseau R. (2014). OM, the Symbol for Primordial Sound. http://institutespiritualsciences.org/blog_mantras/om.php
Telles S, Nagarathna R, Nagendra HR. ( 1995). Autonomic changes during "OM" meditation. Indian J Physiol. Pharmacol. 39(4):418-20. http://www.yoganidranetwork.org/sites/default/files/downloads/files/OM%20Meditation%20research.pdf
Comments