Grunnurinn að allri hreyfingu er að ná að halda jafnvæginu. Þegar við hugsum um jafnvægi og jafnvægisæfingar þá dettur okkur kannski einna helst í hug fimleikafólk. Að standa á höndum krefst gríðarlegs jafnvægis og svo auðvitað að gera æfingar á jafnvægisslá. Einnig dettur okkur í hug ballettdansararnir sem snúast í hringi á táskóm eins og ekkert sé auðveldara. Og svo auðvitað jógarnir - þeir eru auðvitað bara einstakir. En síðan eru það annarskonar íþróttir sem við tengjum kannski ekki beint við jafnvægi en þegar við hugsum um það, snýst bara mjög mikið um jafnvægi. Flest allar boltaíþróttir snúast um að hlaupa upp völlinn og taka síðan skyndilega snúning í allt aðra átt. Ef leikmaðurinn hefur lélegt jafnvægi, þá nær hann aldrei þeirri snerpu sem hann þarf til að skila sínu.
Eins og með svo margt í lífinu þá tökum við því sem sjálfsögðum hluti að hafa gott jafnvægi, þangað til við förum að finna fyrir því að við erum að missa það. Hjá flestum börnum þá er
jafnvægi yfirleitt ekki vandamálið. Þegar árin líða fara flestir hægt og rólega að finna fyrir því að jafnvægið er ekki eins gott og það var. Það er samt ekki vegna þess að við erum að eldast. Aldraðir einstaklingar geta alveg verið með fínasta jafnvægi. Það er frekar að eitthvað komi fyrir okkur sem við vinnum ekki úr. Við erum með einhverskonar eymsli eða meiðumst og lögum það ekki. Þá myndast vöðvaójafnvægi og jafnvel bólgur. Líkaminn heldur alltaf áfram að finna leiðir til að við getum gert þær hreyfingar sem við viljum gera. Hann virkjar aðra vöðva til að vinna vinnu vöðvanna sem eru aumir eða meiddir. Með tímanum verður hreyfigeta okkar jafnvel minni. Við tökum jafnvel ekki eftir því sjálf en það er komin skekkja í líkamann. Þegar hingað er komið þá er ekki óeðlilegt að jafnvægið okkar sé laskað.
Jafnvægi er eins og hvað annað - við verðum ekki góð í því nema við æfum það. Og það er nauðsynlegt fyrir alla að gera það. Það minnkar líkur á meiðslum og árangurinn kemur fyrr en þig grunar.
Vilt þú panta tíma í mat á hreyfifærni?
Σχόλια