top of page
Writer's pictureBerglind Ósk Magnúsdóttir

Hvernig lærum við að hlusta á líkamann? Er það þess virði að hunsa öll einkennin sem hann gefur okkur? Ættum við kannski að gefa okkur nokkrar mínútur á dag og hlúa að okkur sjálfum?




Það skiptir eiginlega ekki máli hvað hrjáir okkur, líkaminn er yfirleitt löngu búinn að láta okkur vita að eitthvað sé ekki í lagi. Í lang flestum tilfellum tökum við ekki eftir því eða bara hunsum það. Það er ekki fyrr en ástandið er orðið mjög slæmt að við grípum inn í. Þá er vandamálið yfirleitt orðið mun stærra en það hefði þurft að vera. Og við eyðum mun meiri tíma og pening til að koma okkur í stand en við hefðum þurft – nokkrum vikum /mánuðum eða jafnvel árum– þegar við fyrst fórum að fá einkenni.


Líkaminn er ótrúlega fullkominn og því finnur hann alltaf leiðir til að starfa sem best. Hann kemur okkur alltaf áfram eins lengi og hann getur. Og ef við hunsum hann algjörlega – þá hættum við að virka einn daginn. Við hættum að geta gert það sem okkur langar og margir hætta að geta séð fyrir sér og hugsað um þá sem eru þeim næst. Hvernig líf er það?

 

Tökum nokkur dæmi


Öndun 


Þegar við öndum þá ættum við fyrst og fremst að nota þindarvöðva (e. diaphragm). Þegar við öndum djúpt þá ætti öndunin að leiða alveg niður í maga. Maginn ætti að rísa örlítið upp og fara rólega niður þegar við öndum frá okkur. Á ensku er þetta kallað “belly breathing” vegna þess að vöðvar í maganum hjálpa mikið við svona djúpöndun.


Þegar andardrátturinn verður hraðari þá förum við að nota aðra vöðva sem þurfa að lyfta rifbeinum til að við getum stækkað og notað lungun meira. Þetta eru vöðvar sem eiga að hjálpa þindarvöðva við öndun. Það er fullkomlega eðlilegt við sumar aðstæður að anda ekki niður í maga, t.d. þegar við erum að fara að taka þátt í erfiðari keppni og mikið liggur fyrir. Við þurfum samt alltaf að anda djúpt inni á milli til að ná jafnvægi. En því miður þá eru margir sem ná aldrei þessu jafnvægi.


Streita, kvíði og léleg líkamsstaða getur komið í veg fyrir djúpöndun. Þeir vöðvar sem eiga að hjálpa þindinni við öndun, enda sem aðalvöðvar sem þeir eru ekki gerðir fyrir. Þindarvöðvi er lítið nýttur – og það hentar honum ekki.


Þegar hingað er komið þá er líkaminn klárlega búinn að senda okkur mörg skilaboð. Við erum með hærri hjartslátt en venjulega og blóðþrýstingur jafnvel orðinn of hár.

Það er mikilvægt að muna að anda djúpt niður í maga. Setjast niður reglulega og taka nokkra rólega andardrætti og finna hvernig hjartslátturinn fer að róast.

 




Uppsöfnuð meiðsli


Hringrás uppsafnaðra meiðslna (e. The performance-deflating loop/cumulative injury cycle) eru allt of algeng en í raun auðvelt að koma í veg fyrir. Hér er verið að tala um lítil meiðsli sem koma vegna endurtakinna hreyfinga. Þau byrja mjög lítil og þróast oft mjög hægt. Til dæmis getur verið að þú finnir einungis lítinn hnút í vöðva þegar þú stríkur yfir hann. Eftir ákveðinn tíma byrja verkir að koma og kannski fara fljótt aftur. Á einhverjum tímapunkti er verkurinn orðinn langvarandi og viðkomandi þarf ef til vill að hætta að stunda þá iðju sem honum finnst skemmtilegt.


Tökum dæmi:


Golfari þarf síendurtekið að taka sveiflu frá hægri til vinstri (fyrir rétthenta golfara). Til að taka kröftuga sveiflu þá þarf liðleiki í ökklum, mjöðmum, hrygg og öxlum að vera góður. Ef golfarinn situr við tölvu allan daginn og vinnur ekki markvisst í liðleikanum, þá eru miklar líkur á því að hann hafi ekki mikinn liðleika í mjöðmum og hrygg (og væntanlega ekki heldur í ökklum og öxlum). Þar sem líkaminn hefur ekki þann liðleika sem hann þarf til að gera hreyfinguna rétt, þá býr hann til annað hreyfimunstur. Með tímanum fara að koma litlir verkir – væntanlega í neðra baki.


Það er alltaf mikilvægt að grípa inn í þegar við förum að finna fyrir minnstu verkjum. Ef við erum ekki viss af hverju verkirnir koma, þá er mikilvægt að fá fagaðila til að greina ástandið. Líkaminn vinnur sem ein heild. Einn veikur hlekkur hefur alltaf áhrif á önnur svæði líkamans.  

 




Næring


Næring er einstaklingsbundin. Þegar tveir einstaklingar eru með nákvæmlega sama mataræðið þá er ekkert sem segir að það henti þeim báðum.


Að finna réttu næringuna þarf ekki að vera flókið en það krefst þess að einstaklingurinn virkilega hlusti á líkamann og velti því fyrir sér hvernig honum líður eftir að hafa borðað ákveðinn mat. Þó svo að einstaklingar séu ekki með ofnæmi eða óþol þá er ýmislegt sem gæti farið illa í þá.


Fyrir suma þá fara mjólkurvörur illa í magann og þeir fá ef til vill krampa eða niðurgang. Fyrir aðra geta mjólkurvörur farið illa í öndunarfærin og jafnvel stíflað kinnholurnar. Margir vilja meina að kornvörur með glúteini fari illa í þá en það gæti jafnvel frekar verið óþol fyrir bökunargeri. Þó svo bökunarger innihaldi ekki sömu örverur og það ger sem er í bjór, þá gæti það samt einnig útskýrt ef einstaklingur þolir illa bjór eða aðra gerjaða drykki (t.d kombucha og jafvel næringarger).


Þó svo matvara sé almennt talin holl þá er ekkert sem segir að hún henti öllum. Hörfræ er gott dæmi um holla vöru sem hentar alls ekki öllum.


Það er alltaf mikilvægt að fylgjast með hvernig okkur líður eftir máltíð. Skrifa niður í dagbók í einhvern ákveðinn tíma getur hjálpað mikið. Einnig er hægt að nota útilokunar aðferðina. Taka út úr mataræðinu allar mjólkurvörur, glútein, ger, hnetur, nikkel eða hvaða matvara sem þig grunar. Bæta svo hægt og rólega inn matvörunum. Muna bara að það þarf að gefa hverri matvöru nægan tíma til að vera alveg viss.





Melting og tilfinningar 


Á ensku er oft sagt “gut feeling” sem gefur í skyn tenginguna sem er á milli maga (meltingar) og heila (tilfinningar). Það eru margar rannsóknir sem nú styðja þessa tenginu. Þegar meltingin okkar er ekki sem best þá erum við óskýr í hugsun og því er góð næring svo mikilvæg fyrir okkur.


Í bókinni The Second Brain eftir Dr. Michael Gershon bendir hann á að maginn hafi mun meiri áhrif á líkamann en bara að sjá um meltinguna. Maginn hafi bein áhrif á okkar andlega ástand og spili lykilhlutverk þegar kemur að mörgum sjúkdómum í líkamanum.


Samkvæmt gömlum kínverskum fræðum þá er einnig mikilvægt að hlusta á hvaða bragð/krydd okkur langar í. Samkvæmt fræðunum;  þegar okkur langar í eitthvað súrt þá er einhverskonar stöðnun í gangi hjá okkur tilfinninga- eða líkamlega. Þegar okkur langar í eitthvað biturt þá erum við döpur eða í einhverskonar tilfinningalegu uppnámi. Þegar okkur langar í eitthvað sterkt þá þurfum við meiri hita í kroppinn og tengist það ónæmiskerfinu okkar. Salt gæti tengst því að eitthvað sé að nýrum eða þvagblöðru og þegar okkur langar í eitthvað sætt, þá vantar okkur orku. Markmiðið er ávalt að ná jafnvægi – mataræðið ætti að vera sambland af öllum brögðum.

 

Það er alltaf mikilvægt að halda meltingunni góðri. Hún spilar rosalega stórt hlutverk í heilsu okkar. Við verðum að borða nægilega mikið af trefjum (ekki minna en 30 g á dag) og drekka nóg af vatni með. Tilfinningar okkar og sérstaklega streita hafa mikil áhrif á meltinguna. Þegar streita er mikil þá einblýnir líkaminn á það sem honum finnst mikilvægast – og það er að lifa af. Það hlýtur að vera eitthvað lífshættulegt að gerast þegar streita er svona mikil! Í hasarnum þá slekkur hann á allri meltingu. Hann eyðir ekki orku í hluti sem eru ekki lífsnauðsynlegir á meðan hann er að koma okkur úr hættuástandinu sem hlýtur að ríkja. Það er fullkomlega rökrétt ef við tökumst á við stutt streitu tímabil. En langvarandi streita virkar ekki fyrir neinn mann.

 


Það getur sparað okkur svo mikinn tíma og sársauka að grípa inn í þegar við getum. Við verðum því að finna tenginguna við líkamann okkar og læra að skilja hann. Stundum er það ekki auðvelt en algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur að reyna. Hægjum aðeins á og hlustum. Það er er pottþétt þess virði!

Comments


bottom of page