Hlátur hefur mikið verið rannsakaður í gegnum árin og gamalt orðatiltæki segir að hláturinn lengi lífið. Rannsóknir hafa sýnt að hlátur hefur jákvæð áhrif á slagæðar, blóðþrýstinginn og almennt á hjarta og æðakerfið. Sýnt hefur einnig verið fram á að einstaklingar með astma hafa minni einkenni eftir að hafa horfa á fyndna og skemmtilega kvikmynd. Einstaklingar þola einnig meiri sársauka þegar þeir horfa á eitthvað fyndið, sem getur komið sér vel að vita í einhverjum aðstæðum. Ekki er verra, að þegar þú hlærð þá brennir þú fleiri kaloríum.
Ein nýjasta rannsóknin um hlátur var gerð af Háskólanum í Georgíu í Bandaríkjunum og snérist hún um hvað gerðist ef að hlátri væri bætt við hefðbundið líkamsræktarprógram. Þeir sem að tóku þátt í rannsókninni voru 27 eldriborgarar og var meðalaldurinn 82 ár. Þeir voru látnir stunda líkamsrækt tvisvar sinnum í viku í 45 mínútur í senn. Þeim var skipt í tvo hópa þar sem helmingurinn var látinn hlæja gerfihlátri inni á milli æfinga, um 8-10 hlátursköst sem áttu að standa yfir í 30-60 sekúndur. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að líkaminn greinir ekki á milli gerfihláturs og alvöru hláturs, rétt eins og gerfibros hefur sömu áhrif á okkur og alvöru bros - okkur líður strax betur þegar við brosum. Eldri borgararnir byrjuðu því með gerfihlátur en að sjálfsögðu endaðu þeir allir í hláturskasti á meðan æfingunum stóð.
Eftir sex vikur voru hóparnir tveir skoðaðir og bornir saman og var niðurstaðan sú að hláturhópurinn var almennt mun viljugri að halda áfram að æfa, voru mun léttari í lundu og sýndu minni þungþyndiseinkenni en hinn hópurinn. Einnig kom í ljós að þeir höfðu byggt upp meira úthald og voru með mun meira sjálfstraust.
Það kemur ekki á óvart að hlátur og þá sérstaklega að hlæja með einhverjum kemur okkur í gott skap, lætur okkur líða betur. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á hlátri en aldrei hefur verið sannað að hláturinn einn og sér lækni sjúkdóma. Það sakar þó aldrei að fara í gegnum lífið og erfið tímabil með húmorinn í lagi, því það er svo miklu skemmtilegra.
コメント