Við Íslendingar erum svo heppin að hafa aðgang að fríu drykkjarvatni án þess að hafa áhyggjur af skaðsemi þess.
Ég var eitt sinn í hópi Bandaríkjamanna sem voru að ræða um Ísland. Ein kunningjakona mín var að koma úr fríi með fjölskyldunni og var hún að segja ferðasögur. Hún hafði margar spurningar og það var margt sem henni þótti einkennilegt. Hún var í heildina ánægð með ferðina en margt var öðruvísi en hún hafði búist við.
Í fyrsta lagi fannst henni allt mjög dýrt. Henni fannst einnig stórundarlegt að hafa hlé á bíómyndum í bíóhúsum og velti því fyrir sér hvort börnin úti á landi færu í skóla eða hvort þau fengju kennslu heima. Henni fannst hún keyra endalaust í gegnum lítil þorp sem börn virtust búa í, en enga skóla sá hún. Hún hafði einnig áhyggjur af því að lenda í slysi og enginn kæmi henni til bjargar. Því ekki sá hún neina spítala. Síðan týndi hún eitt og annað eins og að bílarnir væru litlir og að það væru aldrei örbylgjuofnar í íbúðum. Síðan skyldi hún ekki af hverju Íslendingar ættu svona marga hesta. Hún hafði gaman af hestum og skildi vel af hverju þeir ættu hesta, en af hverju svona marga? Síðan nefnir hún að það sé hræðilegt að kaupa vatn í búðunum, það sé allt með gosi.
Þegar hingað er komið, þá er ég kannski orðin aðeins pirruð á þessum árásum á fallega landið mitt. Mér fannst hún ganga aðeins of langt í gagnrýninni og spurði með vanþókknun af hverju í ósköpunum hún keypti venjulegt vatn á Íslandi? Ég sagði henni að Íslendingar hefðu eitt besta drykkjarvatn í heimi og hún hefði sko sannarlega getað sparað sér peninginn þar. Þetta væri ekki eins og í Bandaríkjunum þar sem kæmi inn um bréfalúguna reglulega bréf frá bæjarfélaginu um mengun kranavatnsins.
Vatn er okkur lífsnauðsynlegt. Við getum lifað í um þrjár vikur án matar en einungis þrjá til fjóra daga án vatns. En þrátt fyrir að vatn sé okkur svona nauðsynlegt þá er um 40% eldri borgara í Bandaríkjunum sem þjást að nokkuð alvarlega ofþornun.
En hversu mikið af vatni eigum við að drekka? Eins og með svo margt sem snýr að næringu, þá er það mjög mismunandi. Almennt er ráðlagt að drekka um 2 – 2.5 lítra af vatni á dag. Þar að auki þarf að drekka aukalega í kringum líkamsrækt og á heitari dögum. Það er einstaklingsbundið hversu mikið við svitnum og ekki má gleyma að við svitnum líka á köldum vetrardögum þegar við stundum útivist. Okkur líður kannski ekki eins og við séum mjög sveitt en við vissulega þurfum að drekka vatn.
Dr. Andrew Budson, prófessor og fyrirlesari í Harvard Medical School hefur verið að rannsaka hvernig vantsdrykkja hefur áhrif á t.d. minni og taugakerfið. Hann telur að það sé nauðsynlegt að fylgjast með hvernig okkur líður og að líkaminn sýni okkur hvenær við þurfum að auka vatnsdrykkjuna. Hann gerir það m.a. með því að:
· Þvagið verður dökkt
· Blóðþrýstingurinn lækkar
· Líkaminn verður veikburða
· Við finnum fyrir svima og getum orðið ringluð og áttavillt
· Við þurfum sjaldan að pissa. Ef það líður lengur en 2 klst á milli klósettferða, þá drekkum við sennilega of lítið
· Ef við drekkum mikið af kaffi, tei og/eða áfengi, gætum við þurft að auka vatnsdrykkjuna.
Gott ráð er að byrja daginn á stóru vatnsglasi eða einfaldlega sofa með vatnsbrúsa á náttborðinu og grípa í hann strax á morgnanna. Drekka svo jafnt og þétt yfir daginn. Sumir eru gjarnir að vakna á nóttunni til að fara á salernið og fyrir þá getur verið gott að hægja á drykkjunni 4-5 klukkustundum fyrir svefn. Samkvæmt könnun sem gerð var í Norður Kaliforníu á yfir 2000 konum, 40 ára og eldri, kom í ljós að tvær af hverjum þremur vaknaði a.m.k einu sinni á hverri nóttu til að fara á klósettið. Í raun er ekki vitað nákvæmlega hver ástæðan var hjá þessum konum en það gefur auga leið að of mikil vatnsdrykkja þegar kemur að kvöldi, eykur líkur á að þurfa að vakna á næturnar til að losa blöðruna.
Ef þú gætir keypt ávinning þess að drekka nóg að vatni í pilluglasi, þá myndu margir sennilega ekki hugsa sig tvisvar um. Vatnið á Íslandi er með því besta í heiminum – njóttu þess að drekka það!
Comentarios