top of page

Þurfum við alltaf að teygja eftir æfingu?

Updated: Nov 6, 2022


Flest okkar sem förum í ræktina finnst eðlilegt að enda þá stund sem við eyðum þar, með því að teygja. Við tökum vel á því og svo förum við á sérstakt svæði þar sem við gerum ákveðna teygju rútínu sem við höfum gert í mörg ár eða gerum bara einhverjar teygjur sem okkur dettur í hug hverju sinni. Þeir sem fara í hóptíma fylgja þá flestir þjálfaranum sem fer í gegnum ákveðna rútínu sem virðist vera nokkuð svipuð hjá flestum þjálfurum. Flestir eru sammála því að teygjur séu mikilvægur partur af heilbrigðu líferni og eitthvað sem stundað ætti reglulega.


En hver er raunverulegur tilgangur þess að gera teygjur og er liðleiki alltaf eftirsóknaverður?

Lágmarksliðleiki er alltaf nauðsynlegur. Við viljum geta beygt okkur niður og reimt skóna. Við viljum geta teygt okkur hátt upp í skáp til að sækja eitthvað og við viljum geta haft fulla hreyfigetu í allar þær áttir sem við viljum mögulega fara í. Við viljum hafa fullkomið jafnvægi á milli vöðva sem þýðir að þeir meiga ekki vera of langir og ekki of stuttir. Til að halda þessu jafnvægi þá þurfum við að styrkja of langa vöðva og teygja of stutta vöðva. Um leið og við teygjum vöðva það mikið að þeir lengjast og gerum ekki styrktaræfingar á móti, þá erum við komin með vöðvaójafnvægi. Þannig ef við endalaust teygjum vöðva sem eru of langir þá gerum við illt verra.En nú gæti einhver farið að velta fyrir sér hvernig þetta virkar þá fyrir þá einstaklinga sem stunda íþróttir sem krefjast hámarks liðleika. Eru þeir þá upp til hópa með vöðvaójafnvægi? Svarið er væntanlega já og nei. Balletdansarar eru væntanlega með þeim allra liðugustu. Í 90 mínútna ballettíma hjá nemendum sem eru komnir nokkuð langt er talið að þeir taki um 200 hopp ásamt nokkrum síendurteknum hreyfingum sem reyna nær einungis á hné, mjaðmir og ökkla. Þetta síendurtekna álag er talið valda um 60% meiðslna hjá dönsurum. Til að standast álagið, verða þeir að jafna út vöðvana og því eyða miklum tíma í styrktaræfingar. Ef það er ekki gert, þá enda dansararnir væntanlega í meiðslahópnum. Þú sérð kannski ekki margar ballerínur í ræktinni að lyfta mjög þungu heldur nota þær frekar teygjur og fókusa á ákveðna vöðva.


En ef við snúum okkur aftur að hinum almenna borgara þá er eins og áður kom fram, nauðsynlegt að halda lágmarks liðleika en einnig er nausynlegt að það sé jafnvægi í líkamanum. Líkaminn leitar alltaf að leiðum til að framkvæma það sem við viljum gera. Ef einhverjir vöðvar eru ekki nægilega sterkir þá koma aðrir vöðvar og aðstoða. Ef við höfum ekki liðleikann til að gera eitthvað, þá reynir líkaminn einnig að finna leið til að framkvæma það sem við viljum gera.


Eftir hópatíma í ræktinni þá hafa þjálfarar yfirleitt tilbúnar teygjur sem henta flestum í tímanum og þeir miða yfirleitt við hvað var gert í tímanum. Margir sem stunda hlaup eru að glíma við sömu vandamálin og því eru hlaupaþjálfarar oft með svipaðar styrktaræfingar og teygjur sem þeir geta notað á stóran hóp. Það á í raun við um allar íþróttir.


Til að svara upprunalegu spurningunni: Þurfum við alltaf að teygja eftir æfingu? Hér er svarið já og nei. Við þurfum að teygja þá vöðva sem eru of stuttir en sleppa því að teygja þá vöðva sem eru of langir. Þá viljum við styrkja. Ef við gerum það ekki þá erum við mun líklegri til að meiðast.


Vilt þú panta tíma í mat á hreyfifærni?
Comments


bottom of page