Vilt þú sýnilega magavöðva?

 

 

Flest vitum við hversu mikilvægt það er að hafa sterka miðju og svokallaðar core æfingar hafa væntanlega aldrei verið vinsælli.  Ef við ætlum að minnka fitu á kvið og láta vöðvana vera sýnilega þá er samt ekki nóg að gera bara æfingar.  Mataræðið skiptir þar jafn miklu máli. 

 

Hér koma nokkur heilræði sem gæti hjálpað þeim sem vilja hafa sýnilegri magavöðva.   

 

1. Minnkaðu kaloríufjöldann hægt og rólega

Eins og það er freistandi að minnka allt í einu fjölda innbyrta kaloría um helming, þá er það ekki æskilegt.  Líkaminn mundi fyllast streitu vegna ástandsins og byrja að framleiða kortisól stresshormón.  Ef kortisól er of hátt í líkamanum til lengri tíma þá veldur það m.a. þyngdaraukningu, svefntruflunum, háum blóðþrýstingi og sýkingum.  Mun áhrifaríkara er að minnka kaloríurnar hægt og rólega.  

 

Einnig er mikilvægt að hafa í huga að ef þú borðar of fáar kaloríur, þá verður þú slappur og sljór.  Það eykur líkurnar á því að borða óhollari fæðu því það er oft einfaldara en að útbúa eitthvað hollt.  

 

2. Borðaðu meira prótein

Þegar við aukum prótein í mataræði okkar þá verðum við saddari og því borðum við minna.  Prótein er líka mikilvægt eftir æfingar til að hjálpa líkamanum að jafna sig og við vöðvauppbyggingu.  

 

3. Drekktu nóg af vatni

Vatn hjálpar líkamanum á svo marga vegu.  Að drekka nóg af vatni yfir daginn gerir þig líka saddari þannig að það minnka líkurnar á óþorfa narti yfir daginn. Fyrir þá sem æfa mikið þá er ekki óraunhæft að miða við um 60 ml. á hvert kg.  60 kg. kona ætti því að drekka um 3600 ml. af vatni hvern dag.  

 

Til að bragðbæta vatnið er hægt að setja gúrkur, appelsínur eða sítrónur út í það.

 

4. Borðaðu nægar trefjar

Trefjar eru ekki bara góðar fyrir meltinguna þó það hjálpi mikið þegar við erum að reyna að minnka kviðfitu.  Þær gera okkur södd fyrr og minnka því líkurnar á ofáti.  Brokkolí, spínat og grænar baunir eru dæmi um grænmeti sem er trefjaríkt og auðvelt að bæta við mataræðið.  

 

5. Veltu fyrir þér hvenær þú borðar

Fyrir marga getur verið erfitt að standast freistingar á kvöldin rétt fyrir svefninn.  Það að borða ekkert snarl eftir kvöldmat getur skipt miklu.  Ef þú borðar morgunmat kl. 8, þá gætir þú prufað að borða ekkert eftir kl. 20 kvöldið áður (eða jafnvel ekkert eftir kl. 19). 

 

6. Borðaðu rólega - notaðu núvitund!

Það tekur heilan um 20 mínútur að átta sig á því að þú sért saddur.  Því er mikilvægt að tyggja rólega og gefa sér tíma. Einnig að vera meðvitaður um það sem  þú ert að gera, ekki skófla öllu upp í þig yfir sjónvarpinu.  Hægðu á þér!

 
 
 
 
© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.  Mynd: Pixabay.