Lifandi Líf

 

 Lifandi líf var stofnað í ágúst 2017 af systrunum Huldu og Berglindi. Þær systur höfðu um þó nokkurt skeið verið áhugamanneskjur um almenna heilsu og velferð og verið duglegar að feta sig áfram á vegi heilbrigðis og hamingju, saman og hvor í sínu lagi. Þegar svo var komið að heilsutengd málefni voru orðin að bæði ástríðu og lífsstíl hjá þeim báðum ákváðu þær að leiða saman hesta sína og freista þess að gera eitthvað gott og skemmtilegt fyrir sig og alla þá sem kæra sig um að slást í för með þeim á þessari vegferð til bættrar heilsu og lífsgæða. Því eins og gáfumennið Jim Rohn sagði; 
           

“Hamingja er ekki eitthvað sem þú frestar til framtíðar, heldur eitthvað sem þú hannar fyrir nútíðina!”. 
 

Úr þessu varð lífsstíls fyrirtækið Lifandi líf ehf.

 

Tilgangur Lifandi Lífs er í stuttu máli að vera valkostur fyrir alla þá sem vilja eða finna þörf til að stíga til hliðar, úr amstri og áreiti því sem fylgir nútíma lífsstíl, og setja sjálfan sig í fyrsta sæti.

Lifandi Líf er netverslun með vörur sem nota má sem verkfæri til að draga úr streitu og skapa jafnvægi í huga, sál og heimili fólks og þar með stuðla að bættum lífsgæðum. Þar sem ekkert er okkur óviðkomandi er varðar heilsutengd mál mun almenn fræðsla um t.d almennar neysluvenjur, hugrækt, útiveru og hreyfingu vera ofarlega á dagskrá auk þess sem ætlunin er að  bjóða upp á námskeið og uppákomur í kjölfarið. 

 

    Lifandi Líf ehf.    
    Kirkjustétt 26
    113 Reykjavík
    S: 5676543
 

    Netfang: lifandilif@lifandilif.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hulda Dagmar Magnúsdóttir

 

                                 

 

Hulda hefur iðkað jóga og ýmsa hugleiðslu tækni í fjölda ára og tekið fjölmörg námskeið í bæði hugleiðslu og heilun eins og  Zen hugrægt, sjálfsdáleiðslu, ilmolíu notkun, Reiki og kristalsheilun. Hún leggur stund á kóresku bardaga íþróttina Taekwondo og er landsliðskona í þeirri íþrótt. Hún stundar reglulega möntrutónun og eyðir því sem eftir er af frítíma sínum á göngu um íslenska náttúru ásamt Golden tíkinni Sakuru. Myndavélin fylgir oftar en ekki með enda er uppáhalds núvitundaræfingin hennar Huldu að fanga augnablikið í íslenskri náttúru með myndavélinni.

Hulda hefur áður starfað við netverslun og hefur tekið námskeið í vefsmíði hjá Nýa tölvu og viðskiptaskólanum og bókhaldsnámskeið hjá Tölvuskólanum Þekking. Hulda sér um framsetningu fyrirtækisins á samskiptamiðlum, gerð fræðsluefnis, viðhald vefsvæðis og samskipti við viðskiptavini. Hulda hefur MS í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands og BS í umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur lagt sérstaka áherslu á að skoða áhrif útiveru, náttúru og grænna svæða á andlega og líkamlega heilsu, velferð og hamingju einstaklinga. Hulda hefur einnig viðbótar diplóma í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands, er með réttindi til kennslu í framhaldsskólum og hefur fengist við gerð náms- og fræðsluefnis. Að auki hefur Hulda lokið einkaþjálfaraskóla World Class og býður upp á almenna þjálfun ásamt því að aðstoða fólk að tileinka sér heilsusamlegri lífsstíl.
 

Hulda@lifandilif.is

 

 

Berglind Ósk Magnúsdóttir

 

                       


Berglind hefur unun að því að ferðast og hefur hún notið þeirra forréttinda að búa erlendis síðan 2011.  Fyrstu árin bjó hún í Sviss en núna er hún búin að koma sér vel fyrir á Boston svæðinu í Bandaríkjunum.  Í Sviss varð hún ástfangin af fjöllunum enda bjó hún við rætur Alpanna. Góð fjallganga og kúabjöllur var hennar hugleiðsla og ekki var verra ef heyrðist í alpahornum í fjarska. Hennar helstu áhugamál í dag eru hjólreiðar og hlaup, enda auðvelt að stunda bæði á því svæði sem hún býr á.  Það er alltaf einhver keppni á döfinni, hvort sem það er heilt- eða hálft maraþon, utanvegshlaup eða hjólreiðakeppni, sem heldur henni við efnið. Nú er hún nýkomin frá Hawaii þar sem hún hljóp Honolulu maraþonið. Með hlaupunum heldur hún huga og líkama í lagi með því að stunda power jóga og bootcamp.    


Berglind er framkvæmdastjóri Lifandi Lífs og sér hún um öll samskipti við birgja og almenna vörustjórnun.  Hún er með MS í Mannauðsstjórnun frá Háskólanum í Edinborg þar sem áhersla hennar var á líðan einstaklinga á vinnustað, hvernig framkoma yfirmanna hafði áhrif á andlega líðan og hvernig sú líðan hefur áhrif á afköst.  BS gráðan hennar er í Stjórnmálafræði og er hún frá Háskóla Íslands.  Einnig hefur hún diploma í Verslunarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst.  

 

Berglind@lifandilif.is

https://www.linkedin.com/in/berglindm/