Tískukúrar síðustu áratuga

 

 

Snemma á níunda áratug síðustu aldar hófst einskonar faraldur af ýmiskonar megrunarkúrum og enn í dag poppa upp kúrar/matarplön sem eiga að stuðla að þyngdartapi og betri líðan.  Þó svo að það geti verið annsi snúið að rannsaka hvort slíkt virki eða ekki, þá hafa vísindamenn reynt að kafa ofan í eitthvað af þessum kúrum og hér koma nokkur dæmi um það sem hefur verið í gangi síðustu 40 árin.  

 

Megrunar- / stuðningshópar: 

 

Svokallaðir megrunarhópar hafa lengi verið til og í kringum síðustu aldamót voru þeir mikið í tísku.  Enn þann dag í dag er einn og einn slíkur hópur í gangi.  Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að stuðningur er mjög mikilvægur þegar kemur að þyngdartapi og þeir sem stunda slíka hópa séu líklegri til að missa kíló.    

 

Máltíðardrykkir: 

 

Á áttunda áratug síðustu aldar komu tveir læknar fram með þá hugmynd að hægt væri að innbyrða hina ,,fullkomnu máltíð" á örskömmum tíma.  Næringin í máltíðinni væri algjörlega í réttum hlutföllum og auðvelt væri að stýra hitaeiningafjölda í hverri máltíð.  Í framhaldinu spruttu upp ýmis fyrirtæki sem buðu margskonar máltíðardrykki og þekkjum við Íslendingar væntanlega Herbalife best.  Ásamt drykkjunum voru ýmsar súpur og próteinstangir sem einnig áttu að bjóða upp á vel samstillta máltíð en fáar hitaeiningar. 

 

Vegna þess hversu fáar hitaeiningar eru í hverjum máltíðardrykk þá hafa rannsóknir sýnt að einstaklingar geta lést töluvert ef þeir innbyrða máltíðardrykki reglulega.  Mikilvægt er þó að lesa innihaldslýsingar vel því einn drykkur getur í sumum tilfellum innihaldið allt of mikið af sykri og kaloríum sem getur leitt til þyngdaraukningar.  

 

Lág kolvetna/ hátt prótín mataræði:

 

Atkins kúrinn varð einstaklega vinsæll í byrjun níunda áratug síðustu aldar.  Hann snýst um að sneiða framhjá kolvetnum og þá fái líkaminn orkuna vegna niðurbrots líkamsfitu en ekki vegna niðurbrots á kolvetnum.  Með þessu á líkaminn að brenna mikilli fitu og einstaklingar léttast.  Rannsóknir hafa stutt að Atkins kúrinn stuðli að þyndarlosun.

 

Paleo mataræði hefur verið mikið í umræðinni síðustu ár enda margir einstaklega góðir íþróttamenn sem hafa lýst yfir hrifningu sinni, sérstaklega í Crossfit heiminum.  Fátt annað var googlað eins oft og Paleo árið 2013 í heilsugeiranum.  Paleo er hið svokallaða steinaldarmataræði og er hugmyndin að borða það sem kemur beint frá náttúrunnar hendi.  Engar unnar matvörur, einungis það sem við getum fundið og týnt sjálf. 

 

Í raun eru ekki margar vísindalegar rannsóknir sem styðja að Paleo sé gott við þyndarlosun en það hafa þó komið fram minni rannsóknir sem gefa til kynna að Paleo gæti hentað mörgum í þeirra þyndarlosunar vegferð. 

 

Trefja kúrinn - The F Plan: 

 

Á tíunda áratug síðustu aldar lofaði Audrey Eyton, rithöfundur og eigandi tímaritsins Slimming magazine að með því að auka trefjaneyslu í 30g á dag, þá mundu kílóin fjúka af.  Trefjar gefa okkur fyllingu og eru lengur að meltast en margur annar maturinn, því líður okkur eins og við séu södd lengur og borðum því minna.  

 

Á síðustu árum hefur verið mikil vitundavakning um mikilvægi trefja (og ekki gleyma að drekka vatn með þeim!).  Nú mælir Landlæknir með því að dagleg trefjaneysla okkar Íslendinga ætti ekki að vera minni en 25-35g.  Hingað til hefur trefjaneyslan verið of lítil en fer upp á við.  Vísindamenn hafa staðfest að trefjaneysla er mikilvæg í baráttunni við aukakílóin og það er einfalt að auka hana með því að borða heilkorn, baunir, heila ávexti og grænmeti. 

 

Fasta: 

 

Föstur náðu miklum vinsældum eftir að BBC sýndi heimildarmyndina Borðaðu, Fastaðu og Lifðu lengur (e. Eat, Fast and Live Longer) og stuttu síðar kom út bók Dr. Michael Mosley, The Fast Diet

 

5:2 kúrinn hvetur fólk til að borða venjulega fimm daga vikunnar (með einhverju tilliti til kaloríuinntöku) og minnka síðan fjöldi kaloría niður í 500 fyrir konur og 600 fyrir karla, tvo daga vikunnar.  Samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2010, kom í ljós að konur sem fylgdu 5:2 mataræðinu, misstu álíka mörg kíló og þær sem fylgdu ströngu mataræði þar sem passað var upp á fjölda kaloría.   Önnur rannsókn sýndi fram á að 5:2 mataræði gæti minnkað hættu á ýmsum gerðum krabbameins eins og brjóstakrabbameins.  

 

Aukin efnaskipti: 

 

Reglulega koma upp kúrar eða vörur sem sagðar eru auka efnaskiptin í líkamanum (e. boost metabolism) og þar með auka þyngdartap.  Grænt te og kaffi eru væntanlega með þekktari dæmunum.  Rannsóknir hafa sýnt að koffein ýti aðeins undir þyngdartap en ekki nema upp að ákveðnu marki. Það getur þó gefið þér smá auka orku sem þú getur nýtt í hreyfingu.  Chili pipar hefur einnig verið kenndur við fitubrennslu og er sagt að piparinn auki hita í líkamanum sem lætur hann vinna meira til að ná venjulegum líkamshita.  Rannsóknir hafa þó sýnt að þó einstaklingar borði sterkan mat, þá er ekki þar með sagt að líkamshiti þeirra hækki.  

 

Skyndikúrar:

 

Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar blossuðu upp allskonar skyndikúrar sem áttu að láta þig missa 4-7 kíló á einni viku.  Sem dæmi, þá var planið þannig að þú borðaðir bara kálsúpu einhvern dag vikunnar og eitthvað annað á hinum dögunum, jafnvel átta banana einn daginn.  Almennt talað, þá eru vísindamenn mjög neikvæðir út í svona kúra og telja að þau kíló sem fara séu fyrst og fremst vatnstap.

 

Annar kúr sem var mjög vinsæll á svipuðum tíma var greipaldinn kúrinn.  Þar var drukkinn greipaldinsafi með öllum máltíðum til þess að losna við 5 kg. á 12 dögum.  Talið var að greipaldinsafi yki fitubrennslu og þyngdartap ef drukkinn væri með próteini.  Það hafa komið fram rannsóknir að greipaldin auki þyngdartap en ekki er enn vitað hvers vegna.  Önnur rannsókn sem gerð var á músum, sýndi fram á að ef mýsnar borðuðu greipaldin, ásamt því að vera á mjög fituríku fæði, þá hægði það á fitusöfnun og lækkaði blóðsykur þeirra.  Það skipti þó engu máli hvort mýsnar borðuðu greipaldin eða ekki ef þær voru á fitulitlu fæði. 

 

Og virka megrunarkúrar? 

 

Allir kúrar geta virkað þegar kemur að þyngdartapi.  Vandamálið er ekki að missa kílóin heldur að halda þeim í burtu.  Það er ekki til nein ein lausn fyrir alla og ekki heldur eitthvað eitt sem við eigum að borða.  Við erum öll mismunandi með mismunandi orkuþörf. 

 

Væntanlega er þetta allt einstaklingsbundið.  Sumir kúrar virka fyrir suma.  Aðal atriðið er að hver fari sínar leiðir.  Gerðu það sem er best fyrir þig!  Hlustum á líkama okkar og lærum hvað hann er að segja okkur; borðum þegar við erum svöng, pössum skammtana, forðumst sætindi og unnar matvörur - brosum og verum hamingjusöm  ॐ  Þá verður allt miklu skemmtilegra 

 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.  Mynd: Pixabay.