Þú stjórnar lífi þínu!

 

 

Hver kannast ekki við að vera endalaust að strögglast með mataræði og hreyfingu?

 

Þú ert að reyna að hætta borða sykur, fylgja ákveðnu hreyfingarplani - allt byrjar voða vel en virkar samt ekki til lengri tíma.  Ástæður geta verið rosalega margar en stundum er gott að byrja á því að leita inn á við og finna hluti sem við getum breytt á einfaldan og ódýran hátt.  

 

Margar rannsóknir hafa verið gerðar um áhrif orða og hversu áhrifaríkt það er að velja réttu orðin þegar verið er að reyna að breyta ákveðinni hegðun.  Ef þú ætlar sem dæmi að hætta að borða sykur þá er mikilvægt að segja ,,ég borða ekki sykur" í stað þess að segja ,,ég má ekki borða sykur" eða ,,ég get ekki borðað sykur".  ,,Ég drekk ekki gos" í staðinn fyrir ,,ég er að reyna að hætta að drekka gos".  ,,Ég ætla að hlaupa 10 km í fyrramálið" í staðinn fyrir ,,ég ætla að reyna að hlaupa 10 km í fyrramálið".  

 

Munurinn er að þegar þú segist ætla að gera eitthvað, þá er það þín ákvörðun.  Þú ákveður að þú drekkir ekki gos.  Þú borðar ekki sykur.  Þú ætlar að hlaupa 10 km í fyrramálið.  Þetta eru allt þínar ákvarðanir.  Ef þú segist ætla að reyna eitthvað eða það að þú megir ekki eitthvað, þá er einhver annar að taka ákvörðunina.  Þá er eins og þú stjórnir ekki þínu lífi og hlutirnir verða erfiðari.  

 

Rannsóknir hafa því sýnt að með því að velja réttu orðin þá nærð þú markmiðum þínum á fljótari og einfaldari hátt en að vera endalaust að ströggla með að gera eitthvað.  Þú ert í fullri stjórn.  

 

Til að þetta virki enn betur þá er gott að hugsa þetta aðeins dýpra.  Alltaf þegar maður gerir breytingu hjá sér þá er mun betra að hún sé eitthvað sem mann langar, ekki af því að manni finnst maður þurfi að gera hana.  Af hverju viltu gera breytinguna?  Gott er að finna einhvern hvata - setja sér markmið.  Sem dæmi, þú villt hætta að borða sykur vegna þess að þér líður illa af honum, færð bólur og verður þrútin.  Sykur er slæmur fyrir þig og þú vilt lifa lífinu án þessarra slæmu áhrifa.  Þú vilt hlaupa 10 km af því þú vilt geta hlaupið hálft maraþon í lok sumars.  Þegar þú ert komin með ástæðuna af hverju þú vilt gera breytinguna...þá verður mun einfaldara að breyta því hvernig þú hugsar og talar.   Allar breytingar og árangur byrjar á því að plana hlutina og ákveða hvernig á að gera þá.  Síðan þarf að framkvæma! 

 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.  Mynd: Pixabay.