Svissneskur hafragrautur

 

Allir sem hafa eitthvað ferðast um Sviss hafa væntanlega orðið varir við þeirra hefðbundna hafragraut, eða bircher muesli eins og þeir kalla það.  Ýmsar útgáfur eru af þessum dásamlega morgunverði en hafrar og ávextir eru þó ávalt aðal uppistaðan.  Hér fyrir neðan er ein einföld útgáfa og aðeins hollari en margar aðrar. 

 

 

Morgunmatur fyrir tvo:

 

1 bolli hafrar

¾ bolli ósæt möndlumjólk eða mjólk að eigin vali

¾ bolli hreint jógúrt

2 tsk. hrátt hunang

1 tsk. kanill

1 tsk. vanillu extract (má sleppa)

Smá salt

1 epli skorið í litla bita með hýði

 

Gott er að setja ofan á: fersk ber, alls konar fræ eins og chia fræ eða sólblómafræ, smátt skornar hnetur, ristaðar kókosflögur, smátt skornar döðlur eða aðrir þurrkaðir ávextir.

 

  • Blandið saman höfrum, mjólk, jógúrt, hunangi, kanil, vanillu og salti í eina skál og látið bíða í ísskáp í klukkustund, jafnvel yfir eina nótt.
  • Bætið við eplinu og meiri mjólk ef of þykkt.
  • Skiptið í tvær skálar og veljið eitthvað hollt og gott til að setja ofan á.

 

Að nota kanil og hrátt hunang er ekki bara einstaklega bragðgott heldur er það meinhollt. 

 

Kanillinn hjálpar þér að hafa hemil á blóðsykrinum ásamt því að vera bakteríudrepandi.  Hann er einnig auðugur af andoxunarefnum sem hjálpar þér að vinna á bólgum.  Ein leið til að auka kanilinntöku er að nota kanilstangir til að hræra í kaffinu, teinu eða mjólkinni.

 

Hunang hefur mikið verið rannsakað og notað til lækninga við ýmsum kvillum í fjölda mörg ár.  Hunang er vissulega hitaeiningaríkt, enda að mestu úr sykri og vatni, en kostir þess eru vel þess virði að láta það eftir sér.  Það skiptir þó vissulega máli hvernig hunang keypt er, best er að velja hrátt hunang sem er yfirleitt frekar dökkt á litinn.  Gott hunang er bæði bakteríudrepandi og með hátt hlutfall lifandi ensíma sem eru okkur nauðsynleg.  Það er einnig auðugt af C, D, E, K og B vítamínum ásamt ýmsum steinefnum. 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.  Mynd: Pixabay.