Sund er allra meina bót!

 

 

Það er fátt eins dásamlegt og að taka góðan sundsprett í byrjun dags.  Íslenskar sundlaugar eru einstaklega góðar og því tilvalið að nýta þær sem mest.  Einnig er hægt að taka það skrefinu lengra og kíkja í sjósund. 

 

 Sund er ólíkt nær öllum öðrum þolæfingum því það þjálfar næstum allan líkamann.  Það þjálfar fætur, hendur og styrkir bæði bak og maga.  Þar sem líkaminn flæðir í gegnum vatnið þá eru engin högg á hnén eða annað álag sem getur reynst mörgum erfitt. 

 

Rannsókn sem gerð var af Hirofumi Tanaka við Háskólann í Texas hefur staðfest þann grun okkar um að sund sé sérstaklega gott fyrir þá einstaklinga sem eru með veikburða hné, bakverki og í yfirþyngd.   Hann hefur einnig sýnt fram á að sund auki liðleika og að það lækki blóðþrýstinginn hjá þeim sem þess þurfa.  Líkaminn vinnur vel án þess að álagið virðist mikið.  Andardrátturinn verður einnig öðruvísi þegar synt er, verður mun dýpri og þægilegri heldur en við margar aðrar þolþjálfanir. 

 

Sund er án efa allra meina bót og ekki er verra að nýta sér útiklefana og skella sér í pottana í lokin.  

 
 
 
 
 
© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.  Mynd: Pixabay.