Streita - langvarandi áhrif á heilsuna.

 

Öll vitum við að steita getur haft áhrif á heilsu okkar og flest erum við í stöðugri leit að leiðum til að hafa hemil á henni. Jóga, hugleiðsla, gong slökun og margt fleira hefur sjaldan verið jafn vinsælt enda allt gert með því hugarfari að ná slökun, innra jafnvægi og innri frið.  

 

Streita hefur verið mikið rannsökuð í gegnum árin og er hún að mörgu leiti mjög flókið fyrirbæri.  Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að streita upp að vissu marki leiði til meiri framleiðni en ef farið er yfir strikið, þá fer framleiðnin niður á við og heilsan okkar með. 

 

Nýleg rannsókn sem kom út í mars hefti Psychological Science sýndi fram á að þeir sem gátu ekki hætt að hugsa um hluti sem olli þeim streitu eða um eitthvað sem hafði komið fyrir áður, áttu við meiri heilsufarsvandamál áratug síðar en hinir sem hættu strax að hugsa um tiltekinn atburð.  

 

Í rannsókninni var fylgst með degi 1.100 einstaklinga í 8 daga og allir streitumiklir atburðir skráðir niður og tilfinningar þeirra gagnvart þeim.  10 árum seinna voru sömu einstaklingarnir spurðir nákvæmra spurninga um heilsufar þeirra og hversu mikið það hefði áhrif á daglegt líf þeirra. 

 

Niðurstöðurnar voru þannig að þeir sem að höfðu sýnt neikvæðari viðbrögð við streitu 10 árum áður, voru mun verr á sig komin líkamlega áratugi síðar.  

 

Þessi rannsókn sýnir enn og aftur hvað það er mikilvægt að dvelja ekki of lengi við hluti sem skipta ef til vill ekki miklu máli, eða þá hluti sem við höfum enga stjórn á.  Það er ekki bara slæmt fyrir líðan okkar þann daginn, heldur er það slæmt fyrir heilsuna okkar. 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.