Skjaldkirtilspróf

 

Hormónarnir þínir bera ábyrgð á því hvernig þú hugsar, hvernig þér líður og hvernig þú lítur út.  Kona, sem hefur jafnvægi á hormónónunum er fljót að hugsa og með gott minni.  Hún er orkumikil yfir daginn án þess að drekka koffein, sofnar auðveldlega að kveldi og vaknar úthvíld.  Hún hefur heilbrigða matarlyst og heldur kjörþyngd án mikillar fyrirhafnar.  Hún hefur heilbrigt hár, húð og neglur.  Hún er í tilfinningalegu jafnvægi og á auðvelt með að takast á við streitu.  Þegar hún fer á blæðingar, þá þjáist hún ekki af miklum óþægindum.  Þegar fer að líða að breytingarskeiði, þá fer hún inn í þetta nýja tímabil án mikilla aukaverkana.  

 

Ef þetta á ekki við um þig, þá er líklegt að einhverjir hormónar séu ekki í jafnvægi.  

 

Magdalena Wszelaki, hormóna- og næringasérfræðingur  (https://hormonesbalance.com/) hefur gert það að atvinnu sinni að hjálpa konum að lagfæra hormónaójafnvægi með réttri næringu og bætiefnum.  Hún hefur sett upp einföld hormónapróf sem gefa einhverjar hugmyndir um hvað gæti verið að.  Prófin koma að sjálfsögðu ekki í staðin fyrir nákvæmar prufur hjá lækni en þau eru góð byrjun.   Ef þú svarar "já" við meira en þremur spurningum í hverju prófi, þá er líklegt að það hormón sem verið er að prófa sé í ójafnvægi. 

 

 

 

Skjaldkirtillinn

 

Skjaldkirtillinn hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið enda ekki að ástæðulausu.  Ef hann er ekki í lagi, þá er líklegt að fæst önnur hormón séu það.  Skjaldkirtillinn er því undirstaðan og því nauðsynlegt að halda honum góðum til að halda almennu hormónajafnvægi.  Hann segir öllum frumum líkamans hversu hratt eða hægt þær eiga að ferðast.  Ef þú ert með vanvirkan skjaldkirtil þá er allt mjög hægt.  Þú getur sofið í 10 klst. án þess að vera úthvíld.  Meltingin er hæg og líklega fylgir því hægðatregða og bæði húð og hár verður þurrt og þunnt.  Þreyta, ófrjósemi, liðaverkir, minnisleysi, vöðvaverkir, mígreni, þreyta, þunglyndi, kaldar hendur og fætur, miklar blæðingar og mæði eru einnig algeng einkenni.        

 

Það getur líka valdið miklum vandamálum ef skjaldkirtillinn er ofvirkur.  Helstu einkenni eru þyngdartap, ör hjartsláttur, hitaóþol og skjálfti ásamt mörgum öðrum.    

 

Það er mun algengara að hafa vanvirkan skjaldkirtil en að hafa hann ofvirkan.  Talið er að um 20 milljónir Bandaríkjamanna þjáist af vanvirkum skjaldkirtli og um 60% af þeim hafa enga hugmynd um það.  Einnig er talið er að konur séu átta sinnum líklegri en karlmenn.  Skjaldkirtillinn getur orðið vanvirkur af ýmsum ástæðum en of mikill sykur, mikið unnið kolvetni og almenn streita hefur gjarnan verið talið helstu áhrifavaldar.  

 

 

 

Vanvirkur skjaldkirtill?

 

 1. Hefur þú verið að missa óvenju mikið hár (gætir verið farin að fá skallabletti)?
 2. Hafa augabrúnir þínar þynnst eða hefur þú verið að missa augnhár?
 3. Hefur þú verið að þyngjast þrátt fyrir hollt mataræði og hreyfingu?
 4. Upplyfir þú þunglyndi, kvíða og/eða deyfð?
 5. Ertu stundum með fjörfisk (flökt í augnlokum)?
 6. Ertu með þunnt og líflaust hár og neglur?
 7. Ertu með þurra húð?
 8. Ertu með hátt LDL kólesteról hlutfall?
 9. Upplyfir þú gjarnan verki í vöðvum og liðum?
 10. Þjáist þú að hægðatregðu?
 11. Færðu stundum náladofa í hendur og/eða fætur?
 12. Eru hendur og/eða fætur þínar kaldar?
 13. Ertu oft þreytt?
 14. Upplyfir þú stundum heilaþoku (hægar hugsanir, erfitt að halda einbeitingu)?
 15. Hefur þú upplyfað ófrjósemi?
 16. Er kynlífslöngun þín minni en áður?
 17. Hefur skjaldkirtillinn þinn stækkað?
 18. Eru skjaldkirtilsvandamál í fjölskyldunni?
 19. Færðu stundum ofsakláða?
 20. Ertu með litlar bylgjur á hliðunum á tungunni?

 

Ef þú gast hakað "já" við fleiri en þrjú atriði þá ættir þú að fara að velta því fyrir þér hvað þú getur gert til að bæta ástandið.  Ef þú ert alveg á mörkunum og/eða vilt bíða aðeins lengur með að leita til læknis þá er eitt annað próf sem hægt er að skoða.  Það er að skoða líkamshita þinn. 

 

Þeir sem eru með vanvirkan skjaldkirtil eru í lang flestum tilfellum með lægri líkamshita en eðlilegt er.  Hjá konum þá getur líkamshitinn breyst eftir því hvar hún er í tíðahringnum.  Því þarftu að mæla þig reglulega einn tíðahring til að fá betri yfirsýn yfir þinn eðlilega líkamshita.  Og athugaðu að líkamshiti kvenna lækkar eftir því sem við eldumst.  

 

 • Innan við fimm mínútur eftir að þú vaknar, áður en þú stígur fram úr rúminu, mældu líkamshita þinn.  Notaðu nákvæman hitamæli og settu hann undir handakrika, undir tungu, í endaþarm eða þar sem þér líður best að hafa hann.
 • Skrifaðu niður niðurstöðurnar heilan tíðahring og skoðaðu í lokinn til að sjá heildarmyndina.  
 • Venjulegur líkamshiti er mismunandi eftir einstaklingum og einnig eftir því hvar er mælt.  Ef mælt er undir armakrika þá er hann um 36.6 C - 36.8 C.  Ef mælt er undir tunguna þá er hann 37.1 C - 37.3 C.  Ef líkamshitinn er mældur í endaþarm þá er hann um 37.1 C.  Ef líkamshiti þinn er undir þessu að jafnaði, gæti það þýtt að skjaldkrirtill þinn sé vanvirkur.

 

Það er ýmislegt hægt að gera til að lækna skjaldkirtilinn án þess að taka inn lyf frá lækni og þeir sem að þurfa á því að halda, ættu einnig að tileinka sér þessi úrræði.  

 

Bólgur

Það er eins og bólgur og vanvirkur skjaldkirtill haldist í hendur.  Ef þú þjáist að bólgum þá er líklegt að eitthvað sé að skjaldkirtlinum og öfugt.  Bólgur eru eins og litlir eldboltar inni í líkamanum sem nauðsynlegt er að stoppa ef þú vilt líta vel út og vera upp á þitt besta. 

 

Fyrsta skrefið er að taka allan skyndibita og unna matvöru af matseðlinum.  Skyndibiti og unnin matvara er einstaklega bólgumyndandi enda eru helstu innihaldsefnin sætuefni, óholl fita ásamt ýmsu sem fáir vita hvað er.  Annað mikilvægt skref er að útrýma öllum helstu streituvöldum því mikil streita veldur því að líkaminn getur ekki unnið úr skjaldkirtilshormónum.  Því er mikilvægt að slaka á, stunda hugleiðslu, jóga eða annað sem minnkar streitu.  Einnig getur verið gott að taka inn jurtir eins og ashwagandha, eleuthero og rhodiola.  

 

Meltingin

Ef þú vilt að skjaldkirtillinn virki sem best, þá er mikilvægt að hafa meltinguna í lagi.  Streita ásamt lélegt fæði hefur mikil áhrif á meltinguna.  Minnkaðu streitu, borðaðu holt og taktu inn góðgerla.  

 

Ýmis lyf

Lyf og samsetning þeirra geta verið annsi flókin.  Mörg lyf sem við kaupum í apótekinu eða fáum hjá lækni geta stolið mikilvægri næringu úr líkömum okkar.  Þessi lyf eru gjarnan kölluð "drug muggers" á ensku.  Helstu vítamínin sem stuðla að framleiðslu skjaldkirtilshormóna er selen, járn, vítamín D og sink.  Það er því nauðsynlegt að passa að okkur skorti ekki þessi næringaefni.  Sem dæmi þá eru getnaðarvarnapillur, sýkla-, astma- og ofnæmislyf gjörn á að stela seleni úr líkamanum. 

 

 

Holl næring og streitulaust líf er undirstaðan að heilbrigðum skjaldkirtli.  Sjávarþang inniheldur mikið af joði sem er nauðsynlegt fyrir starfsemi skjaldkirtilsins.  Borðaðu einnig jarðaber, baunir, trönuber, sykurlaust jógúrt, náttúrlugan ost, þorsk, egg, hnetur og kartöflur.  Borðaðu hreint fæði og minnkaðu streituna - þá mun þér líða mun betur!

 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2019.  Mynd: Pixabay.  Unnið úr bókinni "Cooking for Hormone Balance" eftir Magdalena Wszelaki. Aðrar heimildir:  Well Being Journal (Septembe/Október 2018), Health and Radiant Aging (Fall 2018), The Hormone Secrete, Dr. Tami Meraglia (2015).