Prótein

Föstudagur  25. október 2019 -  Prótein  eftir Berglind Ósk Magnúsdóttir

 

 

 

Eitt helsta áhyggjuefni flestra þegar þeir skipta yfir í plöntufæði er prótein.  Mun ég fá nægilega mikið af próteini?  Hvaðan kemur próteinið? 

 

Algjörlega skiljanlegar pælingar og ég er búin að velta þessu mikið fyrir mér.  En eftir því sem ég les mig meira til þá minnka þær áhyggjur.  Flest okkar þurfum ekki að kíla í okkur kjúklingabringur og nautalundir í öll mál til að uppfylla próteinþörf okkar.  Síðan má ekki gleyma að plöntufæði er alls ekki próteinlaust þó það innihaldi vissulega minna magn en kjötvörur og við þurfum að borða meira af því. Baunir geta innihaldið allt að 25% af próteini.  Bæði möndlur og heilhveiti allt að 14-15% prótein. Ekki má gleyma vöðvabúntinu Stjána Bláa.  Hann vissi sko sannarlega sínu viti þegar hann hakkaði í sig spínat en spínat er um 50% prótein.  Að undanteknum flestum ávextum, þá má segja að flest plöntufæði sé um 12 -15% prótein af heildarkaloríum.   Hér er ég að sjálfsögðu ekki að tala um unna vegan vörur og rétti sem vissulega eru þægilegir, en búið að strípa þá allri hollustu og þar með talið próteinum.  Ég er að tala um alvöru mat – grænmeti, baunir, fræ og hnetur í sínu upprunalega formi.       

 

Prótein hefur sennilega verið vinsælasta orkuefnið í gegnum árin og hefur verið sett á sérstakan stall.  Bæði kolvetni og fita hafa gengið í gegnum mis jákvæð tímabil en ekki próteinið.  Það er alltaf jafn vinsælt.  Ekki misskilja mig, prótein er mikilvægt.  Og þá sérstaklega fyrir þá sem eru að reyna að létta sig.  Spurningin er, þurfum við svona mikið af því?  Ég er búin að vera að lesa bækur og horfa á viðtöl af svakalega flottu íþróttafólki sem lifir á hreinu plöntufæði.  Í bókinni Food for Fitness kemur fram að flestir langhlauparar og hjólreiðfólk þarf bara um 12 – 15% prótein fyrir hámarks árangur.  

 

Vel ígrundað plöntufæði er frábært fyrir heilsuna.  Það inniheldur meira af trefjum, minna af óhollum fitum og meira af plöntuefnum en ef kjöts er neytt.  Galdurinn er að gefa sér þann tíma til að passa að það sé virkilega jafnvægi í mataræðinu.  Passa að það sé alltaf einhver próteingjafi með hverri máltíð.  Próteinin í hrísgrjónum, baunum, pasta, linsum, hnetum, ávöxtum og grænmeti, innihalda ekki allar nauðsynlegar amínósýrur sem líkaminn þarfnast og því mikilvægt að hafa mataræðið fjölbreytt og passa að magnið sé rétt.  Sojavörur innihalda aftur á móti fullt hús af amínósýrum og því góður kostur fyrir þá sem hafa ekkert á móti soja.  Það ætti engan að líða próteinskort á vegan fæði.  Það eru aftur á móti nokkur næringarefni sem ég hefu meiri áhyggjur af og þarf að huga sérstaklega að t.d. járn, sink, kalk og B-12.  Ég mun taka það fyrir síðar.