Næring og tíðahvörf

 

 

Tíðahvörf eru fyrir margar konur engin sérstök skemmtun og einkennast oft af vanlíðan, bæði líkamlega og andlega.  Sumar konur sleppa nokkuð vel á meðan aðrar upplyfa það að líkaminn sé að grillast að innan og það fossar frá þeim svitinn, ásamt því að svefngæði minnki.  Að stunda krefjandi vinnu ásamt öllu öðru sem við viljum koma í verk, getur verið erfitt við þessar aðstæður og haft veruleg áhrif á lífsgæði.  Það jákvæða er, að það er ýmislegt sem hægt er að gera til að gera lífið auðveldara.  Rétt næring er þar fremst í flokki.

 

 

Tíðahvörf verða að jafnaði við 51 árs aldur hjá konum á Íslandi.  Samkvæmt rannsókn sem Læknablaðið birti árið 2000 þá var rúmlega helmingur fimmtugra kvenna enn með reglulegar blæðingar og um helmingur þeirra var í hormónalyfjameðferð (sem að viðheldur blæðingum) til að takast á við einkennin.  Í sömu rannsókn kom einnig fram að um einn fjórði kvenna á Íslandi, sleppi við einkenni breytingaskeiðs og er enn ekki kunnugt hvers vegna það er.  Rannsóknir hafa þó sýnt að hugsanlega sé það mataræðið sem hefur þar mikið að segja. 

 

Plöntuestrógenar eru náttúruleg hormón sem finnst í plöntum.  Mataræði ríkt af plöntuestrógeni hefur vakið áhuga margra vísindamanna undanfarna áratugi og komið hefur í ljós að mataræði ríkt af plöntuestrógeni er gott fyrir alla en ekki síst fyrir allar konur sem ganga í gegnum tíðahvörf.  Rannsóknir hafa þó sýnt að sumar fæðutegundir sem innihalda hormónið eru þó betri en aðrar.  Þar fremst í flokki eru soja prótein, hör- og hampfræ ásamt ávextum og jurtum sem innihalda bíflavóníða.  

 

Soja prótein:

 

Matvörur sem innihalda soja eru meðal annars sojabaunir, tempeh, sojamjöl, sojamjólk, miso og tófú.  Það er einfalt að bæta sojavörum við mataræðið.  Eitt einfalt og gott ráð er að útbúa soja pestó með því að blanda saman sojabaunum, hvítlauk, basiliku og soja jógúrti.

 

Hör- og hampfræ:

 

Hörfræ innihalda góðan skammt af trefjum og omega-3 fitusýrum sem er hollt fyrir alla.  Það eina sem þarf að athuga með hörfræin er að það þarf að mylja þau niður.  Einnig er hægt að kaupa þau mulin en þá þarf að geyma þau í kæli.  Auðvelt er að bæta hörfræum í hristinga eða út á jógúrt. 

Hampfræin eru rík af omga-3 og omega-6 í réttum hlutföllum sem er gott fyrir hjartað.  Þau hafa svipað magn af próteini og soja og eru trefjarík.  Þau innihelda einnig töluvert af A, C og E vítamínum ásamt steinefnunum kalki og kalíum.  Hampolía er mjög góð út á salat eða í dressingar.  Ekki er þó gott að nota hampolíu til steikingar því það eyðileggur alla kosti hennar. 

 

Bíflavóníða:

 

Bíflavóníðar eru blanda efna sem af mörgum eru talin auka frásog og nýtingu C-vítamína í líkamanum.  Bíflavóníðar eru einstaklega auðugir af plöntuestrógeni.  Bíflavóníðar finnast í mörgum ávöxtum og jurtum eins og bláberjum, aðalbláberjum, kirsuberjum, trönuberjum og rauðsmára (e. red clover).

 

Sjávargróður: 

 

Ýmis sjávargróður hefur verið notaður til manneldis í mörghundruð ár og ekki að ástæðulausu.  Sjávargróður er frábær viðbót við það sem áður var upptalið vegna þess hversu mikið af stein- og snefilefnum hann inniheldur. 

 

 

Allt eru þetta matvæli sem gott getur verið að bæta við mataræðið þegar kemur að tíðahvörfum en einnig getur verið gott að sneiða hjá öðrum.  Sykur, unnin matvara, rautt kjöt, mjólkurvörur, salt, koffein og áfengi hafa farið illa í margar konur samkvæmt rannsóknum.  Allt er þetta þó einstaklingsbundið og því mikilvægt að hver og ein finni hvað hentar henni.  Gott er þó að hafa í huga að breytingar í mataræði taka tíma og ekki er hægt að ætlast til að finna mun á nokkrum dögum.  

 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.  Mynd: Pixabay.