Listin að bæta sjálftraustið.

 

 

Hversu oft hefur þú komist á flug og ákveðið að gera eitthvað en talað það svo niður og ákveðið að þú getir það ekki áður en þú reynir?  Hversu oft berðu þig saman við aðra og ert óánægður með eiginn frammistöðu?  Áralöng sjálfsgagnrýni hefur áhrif á einstaklinga og það getur verið erfitt að komast út úr því hegðunarmynstri, en það er nú samt hægt.  

 

Hér koma nokkrir litlir hlutir og breytingar sem þú getur hægt og rólega reynt að gera til að efla sjálfstraustið og vera ánægðari með sjálfan þig.  

 

Slakaðu á

 

Á hverju morgni er gott að byrja daginn á að taka smá stund og skanna líkama og sál.  Hvernig líður þér?  Er líkaminn slakur?  Taktu andann djúpt inn nokkrum sinnum.  Hvað ertu þakklátur fyrir (getur verið einn hlutur eða margir)?   Einbeittu þér að því að gera morgunverkin í rólegheitum með yfirvegun.

 

Réttu úr þér

 

Rannsóknir sýna að þeir sem standa með höfuðið hátt og beint bak, hafa meira sjálfstraust.  Einbeittu þér að líkamsstöðunni en vertu samt eins slakur og hægt er.  Þér mun liða einkennilega í fyrstu, jafnvel asnalega, en heilinn mun fá skilaboð um hvernig líkaminn eigi að vera og þér mun líða betur. 

 

Finndu þér góða vini

 

Að vera umkringdur jákvæðum einstaklingum sem byggja þig upp og þú getur verið þú sjálfur með, hefur meiri áhrif á okkur en marga grunar.  Reyndu að sniðganga þá sem að draga  þig niður og leitaðu til þeirra sem láta þig líða vel.  

 

Finndu styrkleika þína

 

Ein besta leiðin til að efla sjálfstraustið er að gera eitthvað sem þú ert góður í.  Það getur verið allt - og lykillinn er að gera sem mest að því.  

 

Taktu á veikleikum þínum

 

Mörgum finnast þeir ekki verðugir og ekki nógu góðir.  Þeir hræðast t.d. að vinnufélagar sjái í gegnum þá, að þeir sjái að þeir verðskuldi alls ekki starf sitt og einn daginn muni allir sjá hversu lítið þeir kunna.  Í flestum tilfellum er þetta algjör vitleysa.  Fyrir þessa aðila getur verið gott að skilgreina veikleikana, finna hvað vantar uppá.  Stundum kemur í ljós í þessarri rannsóknarvinnu að einstaklingurinn er að standa sig annsi vel.  Ef ekki, þá er kominn tími til að vinna í veikleikunum.   

 

Settu raunveruleg markmið

 

Að setja óraunhæf markmið er hræðilega niðurdrepandi vegna þess að við náum þeim aldrei.  Það er svo margt í þessu lífi sem við getum ekki stjórnað en þegar kemur að markmiðum okkar þá eru  það við sem erum við stjórnvöllinn.  Markmið eiga að vera raunhæf en samt krefjandi.  Ef við náum þeim alltaf án fyrirhafnar  þá eru þau ekki krefjandi.  Ef við náum þeim aldrei sama hversu mikið við lögðum á okkur, þá eru þau ekki raunhæf.  Kyrrsetumaður sem setur sér það markmið að byrja að hreyfa sig í klukkustund á hverjum einasta degi og borða salat og boost í öll mál, er líklegur til að gefast upp.   Þegar  þú setur þér raunhæf og krefjandi markmið -  og nærð þeim með dugnaði, þá veistu í hjarta þínu að þú áttir það skilið.  Þú verður ánægður með sjálfan þig. 

   

Hugsaðu um góðu hlutina

 

Því miður þá erum við svo oft föst í neikvæðum hugsunum um hvað við höfum ekki gert, hverju við höfum ekki áorkað að við gleymum öllu því góða sem við höfum gert.  Við verðum að muna að hugsa um góðu hlutina til að þeir festist í langtíma minninu okkar.  Prófaðu stundum að gera lista yfir allt það góða sem þú hefur gert, það þarf ekki að vera stórt.  Kannski eitthvað lítið sem þú varst búinn að vera á leiðinni að gera lengi.  

 

Öll þessu smáu skref geta hjálpað þér að öðlast trú á sjálfum þér  

 
 
 
 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.