Jurtir fyrir stjörnumerkin

 

 

 

Hér áður fyrr var talið að við öllum veikindum væri til lækning fengin úr jurtaríkinu.  Fyrir mörgum árum síðan, komu upp kenningar um að einstaklingar úr sama stjörnumerkinu fengju sömu eða svipuð veikindi.  Til gamans, þá hafa grasalæknar rýnt í þessi gömlu fræði og komið fram með jurtaseyði eða aðrar náttúrulækningar fyrir hvert og eitt stjörnumerkið.  

 

 

 

 

Fiskar eru gjarnir á að hafa hæg efnaskipti í líkamanum ásamt því að þjást af einhverskonar nýrna- og brisvandamálum.  Til að reyna að hraða efnaskiptin þá ættu þeir að vera duglegir að nota engifer, kóríander, dill og broddkúmen (e. cumin) þegar þeir elda.  Til að bæta meltinguna, þá ættu fiskarnir að sötra á dill- og/eða myntu tei reglulega,  því þeim mun líða mun betur.  

 

Ef fiskarnir geta útvegað sér te sem inniheldur jurtina salsola collina þá gæti það verið mjög gagnlegt fyrir nýrun þeirra og bris.  Þær gætu einnig prufað að útbúa seiði úr kaffifífli (e. chicory) og akurmána (e. agrimony).  Þessar jurtir örva líka meltinguna sem er gott fyrir marga fiska - en hér skula fiskarnir vera hófsamir!

 

Fiskarnir eiga það til að sýna svolítil streitueinkenni og vera svolítið kvíðnir.  Þá getur verið gott fyrir þá að útbúa sér te úr sítrónumelissu (e. lemon balm) sem róar þá.  Sérstaklega er mælt með því að að teið sé drukkið volgt, rétt fyrir svefninn.

 

 

 

 

 

Vatnsberar fá ósjaldan krampa í kálfana og það er mikilvægt að þeir nái að losa um spennuna.  Þeir ættu að einbeita sér að því að hafa mataræðið ríkt af steinefnum og þá sérstaklega magnesíum en það ætti að losa þá við krampana.  Það gæti einnig verið gott fyrir þá að drekka te úr ylliberjum (e. elderberry) og ekki er verra ef þeir bæta örlítilli rósmarín (e. rosemary) með en það er talið örva bæði efnaskipti líkamans og blóðflæðið.  

 

Vatnsberar eru einnig gjarnir að hafa æðahnúta og sýnilegt háræðaslit.  Ef þeir vilja ekki fara í einhverskonar aðgerð, þá væri best fyrir þá að sættast við það.  Það sakar þó aldrei að drekka vökvan úr mistilteini (e. mistletoe) en hann er meinhollur og gæti aðstoðað vatnsberann með æðahnútana.  Þó svo berin séu einnig mjög holl, þá eru það laufin og stilkurinn sem hafa mestan lækningamáttinn.  Þægilegast er væntanlega fyrir vatnsberann að finna mistilteininn í heilsubúðum. 

 

Vatnsberinn er einnig hvattur að taka inn jóhannesarjurt (e. St. Johns´s wort) en hún aðstoðar vatnsberann með ýmsa aðra kvilla sem gætu átt við hann.  Vatnsberinn ætti þó að muna að meira er ekki alltaf betra!

 

 

 

 

 

Steingeitur eiga það til að þjást af allskonar húðvandamálum og þær eru einnig gjarnar á að fá tannpínu.  Ýmsar jurtir henta til að hreinsa húðina en mælt er sérstaklega með því að steingeitur sjóði efltingu (e. horsetail) í ca. 15 mínútur og drekki síðan seiðið af henni.  

 

Til að minnka seiðing í tönnum eða tannpínu þá gæti steingeitin útvegað sér negulolíu og nuddað henni þar sem sársaukinn er sem mestur.  Einnig getur hún blandað smá negul kryddi við vatn og búið til kúlu og nuddað henni þar sem verkurinn er.  Negullinn á að róa ræturnar og virka sem verkjastillandi.  Steingeitin ætti þó að panta sér tíma hjá tannlækni.

 

Steingeitur eiga það einnig til að þjást að ýmsum liðaverkjum en þær geta auðveldlega minnkað verkina með því að taka til í mataræði sínu.  Þær ættu að reyna að minnka kjötát og byrja að borða meira af grænmeti og ávöxtum.  Einnig gæti verið gott fyrir þær að fara reglulega í heitt bað með birkilaufum (e. bich leaves), en þau eru talin góð við ýmsum vöðva- og gigtarverkjum.  

 

 

 

 

Bogmenn eiga oft í vandræðum með að halda heilbrigðum lífstíl.  Þeir borða gjarnan yfir sig og eru máltíðir þeirra oft mjög kaloríuríkar, sem getur endað með ýmsum maga- og nýrnasjúkdómum.  Túnfífils te (e. dandelion tea) hjálpar bogmönnum við uppþembu og magaverki ásamt því að hreinsa lifrina.  Teið skal drukkið volgt og ætti bogmaðurinn að taka sopa og sopa í rólegheitum í stað þess að gúlpa öllu í sig í einu.  Þeir bogmenn sem vilja engan veginn fara út á tún og týna fíflana ættu að skjótast í næstu heilsuverslun og kaupa sér pakka af tilbúnu tei.  Fyrir þá ævintýragjörnu eða þá sem vilja spara aurinn, þá vex túnfífillinn víða og tilvalið er að geyma eitthvað af honum til að nota út á salatið.  

 

Til að örva efnaskiptin þá ætti bogmaðurinn að útbúa seiði úr kaffifífli (e. chicory) og akurmána (e. agrimony).  Báðar þessar jurtir örva líka meltinguna og ætti bogmaðurinn að hafa í huga að drekka alls ekki of mikið af seiðinu.  

 

 

 

 

Sporðdrekinn er annsi gjarn á að þjást af einhverskonar þvagfærasýkingum og nýrnavandamálum.  Gott er fyrir hann að bæta ferskum chili pipar og/eða piparrót (e. horseradish) í mataræði sitt, því góð melting auðveldar honum baráttuna við þvagfærasýkinguna.  Einnig gætu sumir sporðdrekar haft gott að því að eiga te úr laufum brómberja (e. blackberry leaves) en þau gagnast vel við niðurgangi.  

 

Þegar sporðdrekar eldast þá er algengt að blóðþrýstingurinn hækki og gott ráð er að næla sér í nokkra hvítlauksgeira og bæta þeim út í matinn.  Hvítlaukur hefur verið notaður til lækninga við svo mörgum kvillum í svo margar aldir, að það sakar ekki fyrir sporðdrekann að vera svolítið duglegur að bæta geirunum við uppskriftirnar.  Hann verður örugglega ekki hrifinn af þessari hugmynd en aldrei að vita...

 

Sporðdrekar eiga einnig stundum í vandræðum með kynfæri sín.  Hlíðamaríustakkur (e. lady´s mantle) og kamilla (e. chamomile) gætu aðstoðað kvenkyns sporðdreka með sín kvennavandmál en karlarnir ættu að athuga með goldenrod.  Best er væntanlega fyrir sporðdrekana að athuga hvort te með þessum jurtum séu ekki til í heilsuverslunum.

 

 

 

 

 

Vogin kann engan veginn við breytingar og óvænta atburði.  Þegar þær upplyfa eitthvað óvænt eða ef of miklar breytingar eru í lífi þeirra þá fyllast þær streitu sem getur haft alvarleg áhrif á nýrun þeirra.  Mælt er með því að vogin fari í næstu heilsuverslun og finni sér jurtate sem samanstendur af ýmsum jurtum sem hreinsa nýrun og þvagblöðruna.

 

Einnig ættu þær að prufa að sjóða steinselju eða króklöppu rót og drekka seyðið.  Bæði steinseljan og króklappan eru meinhollar og dásamlegar fyrir nýrun.  

 

Það eru ýmsar jurtir sem vogin ætti að tileinka sér til að komast yfir tímabil mikilla breytinga og streitu.  Brenninetla (e. nettle), garðablóðberg (e. thyme), ástríðublóm (e. passionflower) og sítrónumelissa (e. lemon balm) eru allar tilvaldar til að búa til te eða seyði.  

 

 

 

 

 

Flestar meyjur hugsa einstaklega vel um heilsuna.  Þær eiga það þó til að þjást að mikilli streitu og hafa oft alltof miklar áhyggjur.  Streita getur haft margskonar áhrif á heilsuna en þegar kemur að meyjunni, þá lýsir hún sér einna helst í ýmiskonar magavandamálum og þá sérstaklega harðlífi. 

 

Til að losa um hægðirnar þá er mælt með því að meyjur bæti við broddkúmeni (e.cumin), dilli og engifer í mataræði sitt.  Broddkúmenið gæti þó verið aðeins of bragðsterkt fyrir sumar meyjur og ættu þær þá að passa að nota ekki of mikið af  því.   

 

Til að losa um streitu, þá ætti meyjan að nota kryddmæru (e. marjoram) út á rétti eða útbúa te með henni.  Hún róar huga meyjunnar ásamt því að hafa góð áhrif á meltinguna. 

 

 

 

 

 

Það getur verið nauðsynlegt fyrir einstaklinga í ljónsmerkinu að staldra stundum við og slaka aðeins á.  Streita hrjáir oft ljónin sem veldur ekki einungis háþrýstingi hjá þeim heldur hefur það einnig áhrif á lifrina þeirra og gallblöðru.  

 

Ljónið ætti að drekka rauðrófusafa reglulega því hann er talinn lækka of háan blóðþrýsting.  Einnig ætti það að vera duglegt að borða þistilhjörtu (e. artichoke) sem eru talin góð við streitu, ásamt því að vera mjög trefjarík og auðug af vítamínum og steinefnum.  Ef ljónið er alls ekki hrifið af bragðinu, þá getur það stráð örlítið af sykri eða hunangi yfir þistilhjörtun til að gera þau bragðbetri.   Einnig ætti ljónið að temja sér að nota ýmis krydd í eldamennskuna og þá sérstaklega kóríander-, basilikku- og kardimommukrydd. 

 

Til að halda blóðþrýstingnum niðri þá ætti ljónið að reyna að drekka brenninetlute (e. nettle tea) reglulega.  

 

 

 

 

 

Þeir krabbar sem að þjást að ýmsum tilfinningalegum kvillum eiga það einnig til að þjást af ýmiskonar magaverkjum og vera í vandræðum með efnaskipti líkamans.  Það er því auðvelt fyrir þá að bæta á sig kílóum.  Þegar þeir eldast, eiga þeir einnig oft í erfiðleikum með blóðþrýstinginn.  

 

Engifer virkar vel fyrir þá krabba sem vilja koma efnaskiptunum í gott lag.  Auðvelt er að útbúa te úr engifer eða nota það við eldamennsku.  Einnig geta þeir notað engifer krydd.  Til að halda efnaskiptunum góðum og stöðugum þá er gott fyrir þá að drekka te úr vallhumali (e. yarrow), mintu og/eða mjölbananajurt (e. plantain) reglulega. 

 

Til þess að róa tilfinningarnar þá getur verið gott fyrir krabbana að drekka te unnið úr sítrónumelissu (e. lemon balm).

 

 

 

 

 

Það sem að okkur dettur kannski síst í hug þegar við sjáum öruggan tvíburann koma á móti okkur, að hann þjáist að óróa og taugaveiklun.  Tvíburinn á oft erfitt með að sofa vegna kvíða og óróa, enda þekktur fyrir að hugsa allt of mikið.  

 

Mælt er með því að tvíburinn útbúi sér te úr sítrónumelissu (e. lemon balm) og garðabrúðu (e. valerian).   Sítrónumelissan verndar tvíburann gegn hjarta- og lifrasjúkdómum ásamt því að bæta skapið og hjálpa honum að sofa betur.  Garðabrúðan hjálpar honum með taugaóstyrknina ásamt því að vera verkjastillandi fyrir gigtar- og tíðarverkina sem margir tvíburar þjást einnig að.   Tvíburarnir ættu að útbúa teið að kvöldi og einblýna á að slaka á.  

 

Tvíburar ættu einnig að passa sig á öllum öndunarsjúkdómum og fá þeir gjarnan lungnabólgu.  Þegar það gerist ættu þeir að útbúa timjan (e. thyme) te til innöndunar og drykkjar.  Þeir eru einnig viðkvæmir fyrir hósta og þá er gott fyrir þá að fá sér te úr hóffífli (e. coltsfoot) og hörfræjum.  Að öllum líkindum munu þeir ekki vera hrifnir af bragðinu, þá sakar ekki fyrir þá að setja örlítið af hunangi og sítrónu út í það. 

 

 

 

 

Nautið þjáist gjarnan að ýmsum melingarvandamálum og er það hvatt til að borða reglulega þistilhjörtu (e. artichoke) en þau eru trefjarík, ásamt því að innihalda mörg nauðsynleg steinefni.   Því mun væntanlega ekki finnast þau bragðgóð en það ætti nú samt að láta það framhjá sér fara því áhrifarík eru þau.   

 

Nautið er einnig gjarnt á að fá hálsbólgu og er þá mælt með því að það fái sér jurtate úr hóffífli (e. coltsfoot) og mjölbananajurt (e. plantain).  Hóffífill hefur verið notaður í gegnum árin gegn hósta og asma og vex nú víða villtur á Íslandi.  Mjölbananajurtir vaxa þó ekki á Íslandi og þarf því nautið að kaupa tilbúið plantain te í heilsubúðum.   Mælt er með því að hafa tein volg og kyngja þeim hægt og rólega niður.   

 

Nautið ætti einnig að kaupa sér ferska steinselju og tyggja á henni reglulega.  Stenselja er mjög áhrifarík gegn ýmsum sýkingum í munni, ásamt því að gera andardráttinn ferskari.  

 

 

 

 

Hrúturinn þjáist gjarnan að höfuðverk og mígreni.  Vegna þess hversu mikið er um að vera hjá honum þá er hann endalaust á ferðinni og þarf því að læra að slaka á.  Humall (e. hop cones) er talinn vera einstaklega róandi og slakar á þreyttum vöðvum.   Þreyttir hrútar ættu því að útbúa sér jurtate úr humlum með því að hella sjóðandi vatn yfir þá og drekka fyrir svefninn.  

 

Hrútar eru einnig gjarnir á það að verða kalt og að hafa endalausan hroll í sér.  Þá getur komið sér vel að útbúa ylliberjate (e. elderberry tea) sem er mjög ríkt af andoxunarefnum. 

Til að auka almennan kraft og hreysti þá er einnig mælt með því að hrútar auki neyslu hvítlauks enda hefur hvítlaukurinn verið notaður sem allra meina bót í mörg hundruð ár.  

 

Til að einfalda hrútunum lífið, þá er einnig tilvalið að skjótast í næstu heilsuverslun og kaupa þessar jurtir sem tilbúin te eða sem bætiefni.  

 

 

 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir - unnið út frá efni í blaðinu MyHerbs.  Útgefið 2018.  Myndir: Pixabay