Ilmolíur

 

Inngangur
Í árþúsundir, allt frá fornum menningarsamfélögum Egypta, Grikkja, Persa og Rómverja, hefur maðurinn nýtt sér áhrif ilmkjarna sér til heilsubótar og yndisauka. Ilmkjarnaolíur eru unnar úr plöntum og eru þeir hlutar plöntunnar eimaðir sem innihalda þau efni sem sóst er eftir hverju sinni t.d blöð, blóm, ber eða rætur.
Upphafsmaður eiginlegra ilmmeðferða á vesturlöndum er af mörgum talinn vera franski efnafræðingurinn René Maurice Gattefosse sem fyrstur gaf út skrif um efnið árið 1937.


Notkun
Hver ilmkjarnaolía hefur sinn sérstaka ilm, sérstaka efnasamsetningu og almenna eiginleika. Ilmur sumra hefur áhrif á andlegt ástand en aðrar hafa bein áhrif á líkamann. Til eru ýmsar aðferðir til að nýta eiginleika olíanna. Gott er að kynna sér eiginleika nokkurra ilmkjarna og velja svo út frá þeim eiginleikum sem ætlað er að draga fram.

Ilmolíur eru mis sterkar og ekki er óhætt að bera allar olíur á húð og það eru alls ekki allar olíur sem henta til inntöku. Flestar olíur sem keyptar eru í betri verslunum má þó bera á húð en stundum eru þær of sterkar. Nauðsynlegt er að temja sér þann vana að lesa á flöskurnar til að vera alveg viss. Sumar olíur eru sterkari en aðrar og hentar því betur að blanda þær við svo kallaðar burðarolíur. Sem dæmi um burðarolíur eru t.d kókos olía, ólífu olía, avacado olía, möndlu olía og  jojoba olía. Það getur borgað sig að velja burðarolíuna vel því þær eru einnig ólíkar bæði hvað varðar lykt, eiginleika og fitu. Með þessum hætti eru ilmkjarnar notaðir t.d í nudd- og bað olíur sem er ein algengasta notkun þeirra. Að auki er algengt að nýta ilmkjarna í heita bakstra og  oft er afar áhrifaríkt að setja nokkra dropa í sjóðandi heitt vatn og anda ilminum inn með gufu.Nokkrir algengir ilmkjarnar frá Nature´s oil sem fást hjá Lifandi líf.

 

 Ilmkjarnar
Tvær megin ástæður eru taldar valda virkni ilmkjarna. Annars vegar vegna þess að lyktarskynið tengist þeim hluta heila okkar sem nefnist randkerfi og hefur það áhrif á bæði tilfinningar og minningar okkar og margir telja það ástæðu þess að ilmkjarnar hafa tilfinningaleg, huglæg og jafnvel líkamleg áhrif. Hins vegar er svo bein efnafræðileg áhrif af innihalds efnum kjarnanna á líkamann. Áhrifin geta verið æði mismunandi enda eru olíur notaðar í margskonar tilgangi. Sumar eru t.d örvandi á meðan aðrar hafa róandi áhrif, veita slökun eða deyfa sársauka.

Mis erfitt er að vinna með plönturnar og einnig er mis mikið af ilmkjarna sem næst úr hverri plöntu. Það útskýrir oft töluverðan verðmun á milli ilmkjarna innan sama merkis og framleiðanda. Ilmkjarna er hægt að gera úr flestum plöntum og eru því gerðir ilmkjarna ansi margar. Hér má sjá örstutt yfirlit um nokkra algenga kjarna:

 

Eucalyptus hefur sótthreinsandi eiginleika og getur verið góð gegn ýmsum veiru- og bakteríusýkingum. Olían hefur almennt kælandi áhrif á líkamann og getur því komið að gagni gegn háum hita, bruna og ertingu í húð. Ilmurinn er frísklegur og hefur upplífgandi áhrif, hreinsar hugann og spornar við syfju. Vegna þess hve sótthreinsandi hún er hentar hún sérstaklega vel til innöndunar með gufu og getur þannig virkað vel til hreinsunar í öndunarfærum. Hún er einnig góð í nuddolíur og gagnast þannig vel á auma og þreytta vöðva ásamt því að vinna vel á bólgur í líkamanum.

Piparmyntan stuðlar að almennri andlegri og líkamlegri vellíðan en megin áhrif hennar eru þó á meltinguna. Hún róar magann og jafnar sýrustig hans. Linar brjóstsviða og niðurgang og hefur áhrif á ýmsar meltingartruflanir, vindgang og almenna ógleði. Hún er einnig góð á þreytta og sára vöðva og vöðvabólgu þar sem hún hefur slakandi áhrif þrátt fyrir frískandi mentol ylminn. Piparmyntan hentar vel til innöndunar en er einnig afar áhrifarík í nudd- og baðolíur.

Lemongrass hefur afar margþætta virkni til heilsubótar og er vinsæl lækningajurt á Indlandi. Algengast er að nota olíuna gegn verkjum í vöðvum og liðum og hentar hún því vel sem nuddolía. Einnig getur hún hjálpað gegn vandamálum í meltingakerfinu auk þess að hafa sótthreinsandi og bólgueyðandi eiginleika. Ilmur lemongrass olíunnar er léttur sítrus ilmur sem hefur hressandi en jafnfram slakandi áhrif á bæði huga og líkama. Jurtin er stútfull af vítamínum og steinefnum og er því vinsæl til matargerðar, sérstaklega í Asíu, auk þess sem léttur sítrus ilmurinn gerir olíuna sérlega vinsælar í snyrtivörur, sápur, sprey og ilmi.

Orange eða appelsínan hefur löngum verið vinsæll ávöxtur vegna bragðsins, lyktarinnar og heilnæmra áhrifa sinna á líkamann. Olían hefur löngum verið notuð til lækninga í Kína og á Indlandi og er talin virka sérlega vel fyrir ónæmiskerfið. Hún er einnig sérlega rík af andoxunarefnum og því talin góð á húðina þar sem hún getur dregið úr hrukkum. Ilmur appelsínuolíunnar hefur einnig verið talinn hafa jákvæð andleg áhrif og hefur hún sérstaklega verið notuð gegn depurð, sorg og þunglyndi. Ilmur appelsínunnar er einnig afar vinsæll í snyrtivörur, sápur og ýmis efni til hreinlætis.

Tea Tree olían er vel þekkt fyrir einstaklega sótthreinsandi og græðandi eiginleika hennar og er hún sögð virka afar vel gegn veirum, bakteríum og sveppum. Stundum er sagt að Tea Tree olían eigi að vera staðalbúnaður í lyfjaskápnum vegna þess hve góð hún er á húðina. Hún er notuð á sár, sýkingar og útbrot og einnig í þvottavatnið. Hún er einnig vinsæl í sápur, krem og sjampó auk þess sem hún er afar vinsæl til almennra heimilisþrifa.

Lavender ilmkjarninn er líklega vinsælasta og mest notaða ilmolían í heiminum í dag og hefur reyndar verið það í árþúsundir. Egyptar til forna notuðu olíuna mikið og heyrst hefur að keimur af lavender finnist gjarnan þegar forn grafhýsi þeirra eru opnuð. Lavender hefur afar víðtæka virkni og hefur verið notuð við léttum vöðvaverkjum og höfuðverk, unglingabólum og ýmsum húðvandamálum ásamt því að hún er rík af andoxunarefnum og er því talin geta dregið úr öldrun. Megin kraftur hennar er þó á andlega virkni og tilfinningalega líðan því sem dæmi um áhrif hennar er að hún örvar heilastarfssemina, bætir svefn, róar taugar og dregur úr kvíða og streitu. Olían er vinsæl í sápur, hár og húðvörur þar sem ilmurinn fær að njóta sín.

 

Að lokum

Hér á undan er aðeins örstutt yfirlit yfir þá gríðarlega víðfermu flóru sem ilmolíurnar spanna. Algengar ilmolíur, virkni þeirra og  notkunar möguleikar eru margfalt fleiri. Það er þó full ástæða að ítreka mikilvægi þess að notast við vandaðar vörur, lesa á flöskurnar og gæta þess að ilmkjarnarnir komist ekki í snertingu við augu og aðra viðkvæma staði. Með þessi atriði í huga er um að gera að prufa sig áfram og finna hvað hentar. Notkun ilmkjarna væri varla svo algeng, víðtæk og langlíf og raun ber vitni, ef engin væri virkni þeirra. Þess ber þó að geta að ilmkjarnar koma ekki í stað nútíma læknavísinda og ber því ávallt að leita læknis ef svo ber undir. Ilmkjarnar eru hinsvegar dásamleg viðbót og geta sannarlega gagnast okkur til heilsubóta og yndisauka.


Heimildir:
Shirley Price. (1991). Aromatherapy for common ailments. Gaia Books Limited: London.
Lulia Lawless. (1997). The complite illustrated guide to aromatheraphy. Element books INC: Boston
Robin Hayfield. (1998). Homeopathy–Simpler remedies for natural health. Annes publishing: London.
DR.Axe. (2017). Essential Oils. Skoðað þann 15 desember 2017 á:

https://draxe.com/natural-remedies-category/essential-oils/

 

 

© Lifandi Líf ehf, Hulda Dagmar Magnúsdóttir. Útgefið 2017.