Hvernig vinnukúltur viljum við?

 

 

Vinnukúltur hefur mikið verið rannsakaður í gegnum árin enda bæða áhugavert og gagnlegt að átta sig á mismun á milli vinnustaða og ekki síst landa og heimsálfa.  Flest höfum við einhverjar skoðanir á því hvernig vinnustaðurinn okkar á að vera, hversu langir vinnudagarnir eru og hvernig samspil vinnu og frítíma er háttað.  Að mati margra, höfum við Íslendingar unnið allt of mikið í gegnum árin og stéttarfélög hafa unnið hörðum höndum í að stytta vinnuvikuna.  

 

Í Journal of Consumer Reserach var greint frá nýlegri rannsókn sem gerð var á bandarískum facebook notendum.  Úrtakið var beðið um að ímynda sér tvær tegundir af facebook vinum.  Annar vinurinn birti færslur sem gáfu til kynna hversu langir vinnudagar hans væru, hversu mikið álagið væri og hversu almennt upptekinn hann væri.  Hinn vinurinn birti færslur af sér sem gáfu til kynna hversu stuttir vinnudagarnir væru og í raun lítið upptekinn hann væri og gæti því notið lífsins meira.  Úrtakið var síðan beðið um að segja hvor vinurinn væri í eftirsóknaverðari stöðu.  Niðurstaðan var sú að sá upptekni var í töluverðari eftirsóknaverðari stöðu. 

 

Aðrar niðurstöður af rannsóknum hafa stuðst við þessar og hefur það verið talið að Bandaríkjamenn tengja atvinnu og félagslíf oft saman.  Þegar litið er á það þannig, má túlka það að þeir sem vinna meira, stunda mun meira félagslíf en þeir sem vinna lítið eða ekkert.  

 

Þetta virðist ekki vera svona í Evrópu, þar sem að rannsóknir hafa sýnt að þeir sem njóta lífsins virðast vera í mun eftirsóknaverðari stöðu en þeir sem sitja sveittir við vinnu fram eftir kvöldi.  

 

Hvort þú vinnur til að lifa eða lifir til að vinna, verður þú að ákveða en eflaust er jafnvægið besti kosturinn eins og í svo mörgu öðru.  

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.