Holl næring - hvenær sem er!

 

 

Það eru margir sem vilja lifa heilsusamlegu líferni og borða hollt en bara ná því ekki.  Þeir vita alveg hvað þeir eiga að borða en koma því ekki í verk.  Það virðist vera tvennt sem kemur í veg fyrir það: 

 1. Ávani.  Það getur verið erfitt að gera breytingar.  Að borða hollan mat fyrir líkama og sál krefst skipulags og vilja og ef það er ekki fyrir hendi, þá fer allt í sama horfið. 
 2. Erfiðir tímar.  Það er oft þegar við erum að komast yfir breytingar og allt gengur vel, þá koma erfiðir tímar. Það verður óvenju mikið að gera, við förum í fríið og svo framvegis.  Hver þekkir þetta ekki?  Það verður óhentugt að borða hollt og mun þægilegra að fá sér eitthvað fljótlegt.  

 

Þrjár helstu ástæður þess að við förum á skyndibitastað er að það er:

 • Fljótlegt
 • Auðvelt að nálgast
 • Bragðast vel

 

Og hvað segir þetta okkur?  Þegar hlutirnir verða aðeins erfiðari, þá endum við með því að panta pizzu!

 

Fyrir marga, virðist vera mun erfiðara að borða hollan mat að staðaldri en að stunda líkamsrækt.  Þú veist hvað er gott fyrir þinn líkama en nærð ekki að framfylgja því.  Ef þú ert ekki tilbúinn með góða næringu á þeim tímapunkti sem að líkaminn þarf á henni að halda, þá er planið komið í vaskinn.  En hvernig getum við verið tilbúin?

 

 

Á veraldarvefnum eru alls konar lausnir sem eiga að aðstoða okkur að eiga við þetta vandamál.  Hér kemur smá samantekt frá ýmsum sérfræðingum: 

 

Vikuleg rútína:

 

Ef þú ímyndar þér að alltaf þegar þig langar í eitthvað, þá ertu tilbúin með nestisboxið.  Engar pælingar hvað þú ættir að fá þér, engar freistingar í sætindi, bara holl og góð næring allan daginn, alla daga vikunnar.  

 

Með því að taka einn dag í viku getur þú skipulagt allar máltíðir fyrir komandi viku. Þú mundir fara í búðina og sjá um allan undirbúning þannig að ískápurinn væri fullur af tilbúnum réttum sem auðvelt væri að grípa í. 

 

Þetta er klárlega besta leiðin fyrir heilsuna og budduna en vertu tilbúinn að fá góðlegar athugasemdir frá vinnnufélögum og vinum um að þetta sé kannski einum of.  Einnig getur verið félagslega einangrandi að sitja einn með nestisboxið þegar vinnufélagar fara í hópum á veitingastaði í hádeginu.  

 

Dagleg rútína:

 

Þeir sem eru ekki alveg tilbúnir að skipuleggja fyrir alla vikuna, geta tekið einn dag í einu (eða tvo).  Kvöldið áður er hægt að gera næsta dag klárann eða vakna snemma og gera allt klárt fyrir daginn.  Það er einfalt að setja saman grænmeti, baunir, kínóa og hnetur og þú ert kominn með dýrindis salat.  Sem snarl yfir daginn er gott að hafa nokkrar hnetur og rúsínur ásamt ávexti og þú ert kominn með holla næringu út vinnudaginn.  

 

Ef þú ert ekki hrifinn af rútínum, láttu einhvern annan sjá um það:

 

Það er hellingur til af tilbúnum hollum mat í matvörubúðum/ kaffihúsum/heilsuhúsum sem hægt er að kippa með.  Niðurskorið grænmeti, ávextir, gróft brauð, hummus, pestó, möndlu- og hnetublöndur er auðvelt að kaupa og tekur enga stund.  Einnig er fjöldinn allur af góðum heilsusamlegum veitingastöðum sem hægt er að nýta sér.  Aðal málið er að eiga alltaf eitthvað yfir allan daginn þannig það komi aldrei upp sú staða að þú ráðist á eitthvað óheilsusamlegt.   

   

 Ef sú staða kemur upp að þú farir á hefðbundinn veitingastað þá þarf ekki himin og jörð að farast.  Ef þú hefur eftirfarandi ráð í huga, þá ættir þú að geta fengið nokkuð hollan og góðan rétt án þess að hafa mikið fyrir því: 

 

 • Pantaðu nóg af grænmeti, t.d. salat.  Ef þú pantar rétt með frönskum, breyttu þeim í salat.
 • Bættu við próteini.  Oft er hægt að bæta baunum eða kjúklingi við salat.  
 • Oft er hægt að panta góðan forrétt sem dugar vel sem aðalréttur.
 • Súpa og salat er algent á veitingastöðum.  Það gefur þér góða fyllingu og er góður aðalréttur.  
 • Passaðu skammtastærðina.

 

Nokkur ráð um ferðalög:

 

 • Vertu búinn að skoða á internetinu hvað hægt er að borða í kringum hótelið þitt.  Matvöruverslanir eru mjög mismunandi.  Í Bandaríkjunum er t.d. allt öðruvísi að versla í Wholefoods Market eða Wallmart.  Kynntu þér hvað er í boði.  Einhverjir heilsusamlegir veitingastaðir eða kaffihús?
 • Þó svo að það sé notalegt að vera á venjulegu hóteli, þá getur verið mun hagkvæmara fyrir budduna að gista í íbúð eða á íbúðarhóteli.  Einnig getur verið gott að hafa þann möguleika að elda heilsusamlega máltíð og borða stundum "heima". 
 • Flugfélög bjóða í flestum tilfellum bara upp á óhollan mat.  Það er allt í lagi, enda eiga þau að einbeita sér að öðru en eldamennsku.  Það er bara gott að vita það og vera tilbúinn.  Taka með nesti - próteinbar er góður kostur en mikilvægt er að lesa á umbúðirnar því þau eru gjarnan full af sykri.  Hnetur, fræ og þurrkaðir ávextir eru einnig góður kostur.  Síðan er bara að nota hugmyndaflugið.  Smyrðu samloku, taktu með próteinduft, skorið grænmeti eða ávexti.  Og ekki gleyma að drekka vatn!

 

Að borða hollt getur verið erfitt, en það getur líka verið auðvelt.  Engar breytingar eru auðveldar og yfirleitt er það þannig að góðir hlutir kosta vinnu og þolinmæði.  

 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.