Hnetur

 

 

Minnka bólgur Hjálpa líkamanum að lækka kólesterólið Smyrja liðina og halda þeim góðum

 

 

Hnetur eru ekki bara dásamlega góðar út á salat, í kökur eða sem snakk, heldur eru þær einstaklega hollar.  Margar þeirra eru stútfullar af andoxunarefnum og góða fitan í þeim berst gegn bólgum.  Þær eru einnig ríkar af trefjum, vítamínum og steinefnum og hafa rannsóknir sýnt að þær séu góðar fyrir liðina og lækka kólesterólið.

 

Möndlur

 

 

 

Möndlur innihalda mikið af steinefnunum sinki, magnesíumi og kalíum, sem öll eru líkamanum nauðsynleg.  Einnig innihalda þær mikið af  E-vítamíni sem er andoxunarefni, sem er sérstaklega gott fyrir heilann, blóðrásarkerfið og öndunarfærin.  Einnig er það frábært fyrir húðina.  Möndlur innihalda einnig mikið af góðum fitum sem aðstoða líkamann að halda niðri kólesterólinu.  Einnig eru þær trefjaríkar sem hafa góð áhrif á blóðsykurinn.  

 

Skinnið er mikilvægur partur af möndlunni enda inniheldur það mest af E-vítamíninu.  Fyrir þá sem vilja glúteinfrí brauð eða kökur geta auðveldlega búið til möndlumjöl með því að setja möndlur í matvinnsluvél eða búið til möndlumjólk fyrir þá sem vilja sneiða hjá mjólkurvörum.

 

 

Kasjúhnetur

 

 

Kasjúhnetur innihalda mikið af góðum fitusýrum eins og Omega-3 sem verjast gegn hjartasjúkdómum og krabbameini.  Þær innihalda einnig töluvert af kalsíumi, magnesíumi, járni, sinki og fólínsýru sem gera þær að afbragðs góðum kosti fyrir þá sem vilja hugsa um heilsu beina.  Þær eru einnig frábærar fyrir húðina.  

 

Þar sem kasjúhnetur innihalda sterkju þá eru þær frábærar til að þykkja vatnskenndar súpur og sósur. 

 

 

Kastaníuhnetur

 

 

 

Kastaníuhnetur eru einstaklega lágar í kaloríum enda innihalda mjög lítið af fitu miðað við aðrar hnetur.  Þær innihalda þó töluvert af góðum fitusýrum sem gera þær mjög góðar fyrir hjartað.  Einnig eru þær trefjaríkar og auðugar af beta-karótíni og fólínsýru ásamt því að vera eina hnetutegundin sem inniheldur töluvert af C-vítamíni.  

 

Á Ítalíu og í öðrum Mið-Evrópu löndum eru kastaníuhnetur mjög vinsælar og hægt er að fá þær ristaðar á hverju horni yfir vetrarmánuðina.  Einnig eru þær mikið notaðar í staðinn fyrir hveiti í kökur og sætabrauð, ásamt því að eiga sér fastan sess í marga mjög vinsæla rétti.

 

 

Heslihnetur

 

 

Heslihnetur eru auðugar af góðum fitusýrum og því góðar fyrir hjartað og hjálpa líkamanum að berjast við of hátt kólesteról.  Einnig eru þær auðugar af E og K- vítamínum.  Þær eru góðar fyrir, húð, hár og neglur því þær innihalda bíótín og fólinsýru.  Mikilvægt er að borða skinnið því það inniheldur mun meira af andoxunarefnum en hnetan sjálf.  

 

Tilvalið er að mylja heslihnetur ofan á morgunverðinn eða eftirréttinn til að fá smá auka næringarboost.

 

 

Furuhnetur

 

 

 

Furuhnetur eru með óvenju hátt hlutfall af próteini miðað við aðrar hnetur.  Einnig innihalda þær meira magn af K-vítamíni sem eru nauðsynlegt fyrir beinin og liðina.  Þær eru magnesíum og kalíum ríkar sem hægir á hröðum hjartslætti og lækkar blóðþrýstinginn.  Þó þær séu með hærra hlutfall fitu en flestar aðrar hnetur þá er hún góð og hjálpar því líkamanum að lækka kólesterólið.  

 

Furuhnetur er hægt  að bæta út á salat, pasta eða ýmsa aðra rétti til að auka næringu.

 

Pistasíuhnetur   

 

 

 

 

Pistasíuhnetur innihalda mjög mikið af andoxunarefnum og eru sérstaklega góðar gegn bólgum.  Þær eru einnig ríkar af steinefnum eins og kalíum, kalsíum, sinki, járni og megnesíumi sem gera þær góðar fyrir bein og vöðva.  

 

Til að fá sem mesta næringu út úr pistasíum skal forðast að hita þær, því henta þær ekki í kökur og heita rétta.  Betra er að mylja þær niður og strá yfir jógúrt eða salat.  Einnig eru þær afbragðsgóðar til að nota í pestó.

 

 

Valhnetur

 

 

 

 

Valhnetur eru einstaklega góðar fyrir hjartað, lækka kólesterólið og góðar fyrir gigt.  Þær eru einnig stútfullar af andoxunarefnum og því frábærar fyrir húðina.  Einnig innihalda þær serótónín, sem meðal annars vinnur gegn þunglyndi og kvíða.

 

Valhnetur er hægt að bæta út í eftirrétti, morgunmatinn, kökur og allt sem manni dettur í hug.  Þær eru góðar kaldar og bakaðar.

 

 

   

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Myndir: Pixabay.  Útgefið 2018.