Hlaup lengir lífið!

 

 

Þó svo að veðrið leiki okkur Íslendinga oft grátt þá er fjöldi fólks sem reimar á sig hlaupaskóna dag hvern og tekur nokkra kílómetra.  Flestir byrja að hlaupa til að missa nokkur kíló.  Fara kannski sjaldan og óreglulega - og það er erfitt - og hætta svo.  Það er erfitt að byrja að hlaupa.  Við byrjum of geist, förum of hratt, verðum fyrir vonbrigðum og skiljum ekki af hverju við getum ekki hlaupið þessa stuttu vegalengd, fáum tár í augun, okkur langar að henda símanum út í skóg, okkur er allt of heitt því við héldum að það væri svo kalt, erum að drepast í sköflungnum og skórnir eru of litlir.  Við erum allt of svöng eða bumbult því við borðuðum svo mikið rétt áður en við fórum út....og vá hvað við þurfum að komast á klósettið!  Vonandi gengur þetta þó ekki alveg svona langt hjá flestum, en skilaboðin eru að það er erfitt að byrja að hlaupa. 

 

Lausnin er kannski ekki auðveld en hún er einföld.  Það er að gefast ekki upp - halda áfram að reyna og gera það reglulega.  Hægt og rólega verður það auðveldara.  Þú lærir hvernig þú átt að klæða þig eftir veðri, hvernig þér finnst best að nærast, finnur hentugan hraða og hvað viðkemur klósettferðum....ja þú bara finnur út úr því.  Ef þú kemst yfir byrjunarerfiðleikana, þá er ekki aftur snúið og þú öðlast nýtt og betra - lifandi líf.  Að sjálfsögðu koma upp önnur vandamál þá, en það er óþarfi að hafa áhyggjur af því á þessum tímapunkti.     

 

Hlaup hefur sjaldan verið jafnvinsælt og núna og það er orðin mjög sterk hlaupamenning á Íslandi.  Útlendingar eru farnir að koma sérstaklega til Íslands til að taka þátt í hinum ýmsum hlaupum og Íslendingar finnast á ótrúlegustu stöðum erlendis að taka þátt í spennandi hlaupum, enda er það frábær leið til að kynnast nýjum borgum og fallegum stöðum. 

 

Það er þó ekki bara skemmtilegt að hlaupa heldur er það frábært fyrir heilsuna.  Nýlega voru birtar niðurstöður af rannsókn þar sem fylgst var með 55.000 einstaklingum í 15 ár.  Þar kom fram að þeir sem að hlupu reglulega voru 45% ólíklegri að deyja af völdum hjartaáfalls og í heildina um 30% ólíklegri að deyja úr öðrum sjúkdómum.  Einnig kom fram að allt reglulegt hlaup lengdi lífið um 3 ár.   Hér er ekki verið að tala um langar vegalengdir heldur byrjar ávinningurinn strax að sjást þó svo einstaklingurinn hlaupi rétt um 10 mínútur á dag.     

 

Það gæti því verið vel þess virði að prufa að skella á sig hlaupaskónum og taka einn hring.  Muna bara að vera þolinmóður - ekki gefast upp, vera í góðum skóm og hlusta á líkamann. 

 

 

 

 © Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.  Myndir: Pixabay.