Forsagan

Við systur hjá Lifandi Líf höfum aldrei viljað kenna okkur við eitthvað ákveðið mataræði, heldur höfum við reynt að hafa hlutina einfalda og holla.  Við reynum að hafa jafnvægi á milli næringaflokka og notum góð hráefni.  Í síðustu tíð höfum við hvorugar verið miklar kjötætur þó við höfum alveg borðað kjöt.  Það sama má segja um mjólkurvörur.  Neysla þeirra hefur vissulega minnkað mikið síðustu árin þó það hafi í raun ekki verið viljandi.  

 

Nú er aftur á móti smá tímamót hjá annarri okkar, Berglindi, því hún hefur ákveðið að snúa sér algjörlega að VEGAN mataræði.  Í upphafi var það vegna þess að hún hefur í auknu mæli verið að finna fyrir ofnæmiseinkennum frá mjólkurvörum og verið að taka þær hægt og rólega út úr mataræðinu með góðum árangri.  Þegar hún var að lesa sér til um mjólkurvörur þá leiddist áhugi hennar hægt og rólega í áttina að VEGAN mataræði.  Það var svosem ekki í fyrsta skiptið sem hún var að lesa sér til um það, en það var eitthvað á þessum tímapunkti sem allt small saman.  Kannski einkennilegt þegar allt snýst um KETO, en svona er þetta stundum.  

 

Maraþon undirbúningur á VEGAN fæði.......

 

Þegar ákvörðunin var tekin þá var ekki aftur snúið.  Fullt af bókum pantaðar og rannsóknarvinnan hófst að alvöru.  En markmiðið var ekki bara að vera VEGAN heldur að vera full af orku og æfa fyrir maraþon á VEGAN fæði.  Eftir að hafa lesið óteljandi sögur frá maraþonhlaupurum, ultrahlaupurum, hjólreiðafólki, Ironman fólki og alls konar öðruvísi fólki, um hversu miklu öflugri íþróttamenn þeir urðu eftir að hafa skipt yfir í plöntufæði, þá langaði hana til að athuga hvort þetta gæti hjálpað henni.  Maraþonið sem hún hleypur verður í Honolulu í Hawaii þann 8 desember 2019 og þangað til mun hún koma með uppskriftir, blogg og fróðleik um VEGAN mataræði hér á síðunni.   

 

 

 

Miðvikudagur 23. október 2019 -  Forsagan  eftir Berglind Ósk Magnúsdóttir

 

 

Nú hef ég tekið þá ákvörðun að vera VEGAN og langar mig að deila minni upplifun og þeim fróðleik sem ég kemst yfir með þér kæri lesandi.  Ég er búin að borða hollan mat lengi en hefði samt vilja vera orkumeiri og fá meira ,,boost" út úr því sem ég borða, sérstaklega nú þegar ég er í miðjum undirbúningi fyrir maraþon.  Því langar mig að athuga hvort það breyti einhverju fyrir mig að hætta að borða allar mjólkurvörur og kjöt.

 

Ef þú hefur einhverjar ábendingar, tillögur að umfjöllunarefni eða lumar á góðri VEGAN uppskrift sem ég get birt hér á síðunni, þá mátt þú endilega senda mér línu á berglind@lifandilif.is 

 

Ef þú hefur áhuga, þá er hér „örlítil“ forsaga um mitt mataræði og hreyfingu:

 

Ég er afskaplega venjuleg kona, komin á fimmtugsaldurinn.  Enginn garpur og heldur enginn letingi.  Alin upp í Breiðholtinu, borðaði kjötbollur í dós og stundaði ballet í mörg ár.  Þrátt fyrir að vera með sýnilega magavöðva þegar ég var 11 ára, þá var ég of feit (ég vil meina þrekin!) fyrir Þjóðleikhúsið.  Eftir eina æfinguna var ég tekin afsíðis og tilkynnt að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum.  Það gæti enginn karlmaður lyft mér.  Ég hafði enga þekkingu á því hvað ég ætti að borða og enginn í kringum mig ræddi þessi mál.  Því fór ég bara heim, sagði engum frá þessu og hætti. 

 

Á unglingsárunum borðaði ég Sóma samlokur og drakk diet kók.  Þegar ég var í heilsunni þá fékk ég mér Heilsubita frá Sóma og var ótrúlega ánægð með mig.  Ekki fór ég oft í ræktina en mér er þó minnisstætt þegar ég ætlaði að taka mig taki með nokkrum stelpum sem ég hafði nýlega kynnst.  Ég fór í Kringluna og keypti mér íþróttaföt.  Svakalega flottan leikfimisbol og leggings í svakalegum litum.  Ég hitti stelpurnar í klefanum í ræktinni og þær voru byrjaðar að klæða sig þegar ég kem inn.  Allar í voða fínum stuttbuxum og bolum.  Þegar ég er að að taka fötin mín upp þá segir ein: „Munið þið þegar allar konur voru í Jane Fonda fötum?“  Allar skella uppúr en ég fölna með nýju fötin mín í fanginu.  Afsaka mig eitthvað um að ég hafi þurft að finna eitthvað í flýti heima...fer á æfinguna... en mæti aldrei aftur. 

 

Á þrítugsaldrinum er ég orðin fastakúnni á KFC.  Dásamlegu kjúklingaborgararnir runnu ljúft niður með diet kókinu sem enn var í miklu uppáhaldi.  Ég pantaði þó stundum salat hjá þeim en það var bara þegar ég var í sérstöku skapi, sem var mjög sjaldan.  Í hádeginu átti ég það þó til að draga fram Herbalife próteinið mitt í vinnunni og hrista það saman við vatn í fína hand hristaranum mínum.  Ég man sérstaklega eftir grettunum á vinnufélögunum þegar þeir töldu kekkina. 

 

Á þessum árum átti ég ekki mikinn pening og það var einungis örsjaldan sem ég gat leyft mér þann munað að panta pizzu.  En mér er svolítið minnistætt einu sinni þegar ég pantaði pizzu hjá Pizza Hut í Smáralindinni.  Ég mæti í Smáralindina til að sækja.  Ömurlegt veður, rok og rigning.  Fullt af fólki í Smáralindinni.  Ég tek pizzuna og kókið og labba út.  Við mér tekur brjáluð vindhviða og pizzakassinn opnast beint í andlitið á mér.  Ég stend út á miðju bílaplani og næ loksins að loka kassanum en uppgvöta, mér til mikils ama, að hann er tómur.  Ég lít í kringum mig og sé að pizzasneiðarnar liggja hér og þar á bílrúðum og hafa skotist úr kassanum eins og frisbídiskar.    Nú voru góð ráð dýr.  Ekki hafði ég efni á að kaupa aðra pizzu þannig ég fór aftur inn í Pizza Hut og náði að væla út aðra pizzu fría (í einhverri geðshræringu).  Enn þann dag í dag er ég þakklát fyrir það...en ég hef ekki farið þangað síðan.

 

Þarna uppgvöta ég líka hvað Nóa kropp er sjúklega gott.  Ég held að það átti sig enginn á því hvað mér finnst það gott.  Það var eitt sinn sem ég var að bíða eftir að pabbi kæmi að sækja mig til að skutla mér til læknis því ég átti tíma í keiluskurð.  Ég þurfti að sjálfsögðu að vera fastandi en átti ekki að mæta fyrr en um hádegið.  Þannig ég sat róleg heima, fastandi og einhverra hluta vegna fór að velta því fyrir mér hvort væri ódýrara að kaupa Nóa kropp í fríhöfninni eða í Bónus.  Ég afla mér upplýsingar á netinu en rölti fram í skáp og kíki á einn poka sem ég keypti í Bónus til að skoða hversu mörg grömm væru í pokanum.  Á meðan ég skoða þetta gaumgæfulega og kemst að  því að það er væntanlega hagkvæmara að kaupa Nóa Kropp í Bónus, þá narta ég í nokkrar kúlur.  Pabbi kemur og ég er farin.   Ég er komin til læknisins og það er verið að gera allt klárt.  Svæfingarlæknir kemur og ræðir við mig..spyr síðan í lokin hvort ég sé ekki örugglega fastandi.  Ég stamaði upp einhverju óskiljanlegu því að sjálfsögðu áttaði ég mig á því að ég var engan veginn fastandi.  Ég útskýrði það fyrir honum rólega að ég hafi óvart borðað nokkrar kúlur af Nóa Kroppi..kannski hafi það verið aðeins meira og reyndi að sýna honum magnið í lófanum.  Læknirinn var mjög fagmannlegur og sagði að best væri að finna annan tíma fyrir aðgerðina.  Þegar ég labba fram í móttökuna þá fer ég framhjá kaffistofunni og er hurðin hölluð en ég heyri hlátursköllin fram.  Ég fékk annan tíma hjá skælbrosandi konunni í móttökunni.  Því miður þá varð ég að fara þangað aftur.      

 

Á þrítugsaldrinum byrjaði ég að hreyfa mig að einhverju viti.  Ég var svona námskeiðakona.  Skráði mig í 6 vikna námskeið hér og þar en passaði mig að taka góðar pásur á milli námskeiða.  Á þessum árum kynnist ég spinning og fannst það geggjað.

 

Á fertugsaldrinum flyt ég til Sviss.  Ég kemst að því að Svisslendingar kunna ekki að búa til bakkelsi og það er mun minna til af sælgæti þar en á Íslandi.  Svissneskt kjöt er mjög dýrt þannig að kjötát minnkaði mjög mikið.  Í Sviss kynnist ég allskonar ofurfæði og byrja að skoða næringarfræði.  Ég fer á gönguskíðanámskeið, skautanámskeið, stunda skíði,  kaupi mér götuhjól og tek þátt í hjólreiðakeppnum.  Verð fjallgöngusjúklingur, kynnist Crossfit og byrja aðeins að hlaupa.  Ketilbjöllur eru orðnar hluti af stofunni og ég flokka allt rusl.  Ekki að fatastærðir skipti öllu máli...EN ég fer úr L í S á mjög skömmum tíma.

 

Síðan fæ ég menningarsjokk þegar ég flyt til Bandaríkjanna.  Neysluhyggjan, umhverfismálin, landbúnaðurinn (og stjórnmálin) eru efni í margar bækur.  Hér er allt það slæma..en líka allt það góða sem ég reyni að horfa bara á.  Ég byrja að hlaupa meira.  Byrja að stunda jóga og kynnist hugleiðslu.  Hleyp hálft maraþon og síðan heilt maraþon rétt áður en ég verð fertug. 

 

Nú á fimmtugsaldrinum er ég í besta formi lífs míns.  Borða hollan mat.  Þarf ekkert að spá í aukakílóin.  Kynntist Amazon Prime sem ég elska (talandi um neysluhyggju!).  Stunda Boot camp.  Hjóla þegar mig langar til en hleyp reglulega og er nú að æfa fyrir maraþon.

 

Ég hef tvisvar sinnum áður gengið í gegnum undirbúning fyrir langhlaup.  Í fyrra skiptið var það maraþon og í seinna skiptið var það ultra fjallahlaup.  Í bæði skiptin gerði ég mistök sem ég er vonandi búin að læra af.  Í fyrra skiptið þjáðist ég í raun af miklum næringarskorti.  Ég hafði verið mikið meidd á æfingatímabilinu sem er ekki óeðlilegt þegar vítamín-D, járn, kalk og magnesíum er allt vel undir eðlilegu marki.  Það var í raun ótrúlegt að ég hafi náð að klára...var reyndar um 40 mínútum á eftir áætlun en ég kláraði.  Það er það sem skiptir mig máli í dag.  Ég var í marga mánuði að vinna mig upp úr þessum skorti.  Í seinna skiptið fór ég allt of geist í æfingarnar, endaði með iljarfellsbólgu sem kostaði það að ég gat ekkert hlaupið í rúma 4 mánuði.  Fyrri reynsla mín er ein af mörgum ástæðum af hverju ég ætla að skipta yfir í VEGAN fæði.  Ég virkilega trúi því að það geti hjálpað mér að ná betri árangri  heart.