Fólkið í lífi þínu.

 

 

Við erum félagsverur í eðli okkar.  Það að tengja við aðra lætur okkur líða vel, við finnum fyrir öryggi og við finnum hvað skiptir mestu máli.  Flest höfum við þó gengið í gegnum tímabil sem við drögum okkur til baka, tilfinningalega eða líkamlega, og erum ekki til staðar fyrir fólkið okkar.  Þegar uppi er staðið, þá eru það við sem endum einangruð og missum af svo mikilli gleði og fyllingu sem fólkið í lífinu okkar gefur okkur.  

Félagsleg einangrun er vaxandi vandamál í þjóðfélaginu og geta ástæðurnar verið ýmsar.  Það að eignast nýja vini getur verið erfitt fyrir marga og þegar sambandið er ekki ræktað við þá gömlu, þá er auðvelt að vera einmanna.    

 

Núvitund, og það að lifa í núinu getur hjálpað okkur að rækta sambönd okkar við aðra og gefa okkur þá félagslegu fyllingu sem við sækjum flest í.   

 

Blaðið Mindfulness birti lista yfir þá hluti sem við getum gert til að rækta sambandið við vini okkar og fjölskyldu:

 

Horfðu í augun á fólki

 

Mörgum finnst erfitt að horfa í augun á fólki og þá sérstaklega ókunnugum.  Með því að horfa í augun á fólki verða samskiptin dýpri og innilegri.   Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem að komast yfir feimnina og venja sig á því að horfa beint í augun á öðrum, finna fyrir meiri vellíðan og tengingu við aðra.

 

Hlustaðu á það sem aðrir hafa að segja

 

Það að hlusta á aðra er ekki það sama og að heyra hvað þeir segja.  Næst þegar þú átt í samræðum við aðra, taktu þá eftir líkamstjáningunni.  Hlustaðu hvernig rödd þeirra hljómar og reyndu að standast það að segja eitthvað.  Þegar okkur finnst eins og hlustað sé á okkur, þá finnst okkur eins og fólki sé umhugað um okkur og það ýtir undir hrifningu okkar á hinum aðilanum og bætir samskiptin.

 

Snerting skiptir máli

 

Rannsóknir hafa margoft sýnt hversu líkamleg snerting skiptir okkur mannfólkið miklu máli.  Létt (viðeigandi) snerting á hendur, axlir eða hné gefur okkur nánari samskipti og meiri vellíðan.

 

Knúsaðu eins og þú meinir það

 

Rannsóknir sýna að gott knús getur lækkað blóðþrýstinginn, minnkað kvíða og losað um ástarhormónið "oxytocin".  Hvern hefur þú knúsað í dag?

 

Sýndu áhuga

 

Ein aðal uppispretta núvitundar er forvitni, og við getum nýtt okkur það í samskiptum okkar við aðra til að auka hlýleika og traust.  Við ákveðum stundum að við þekkjum persónur það vel að við getum séð fyrir hvernig þær bregðast við hinum ýmsu hlutum og hvernig þær haga sér.  Þó það geti að mörgu leiti verið rétt þá kemur það í veg fyrir að við virkilega sýnum þeim áhuga og sjáum þær eins og þær eru.  Við sjáum okkar hugmynd um hvernig persónan er frekar en hvernig hún virkilega er.  Ef þú prufar að vera opinn, forvitinn og áhagasamur um þá sem eru þér næst, þá gæti ýmislegt komið þér á óvart.

 

Stattu við loforðin

 

Þegar þú segist ætla að koma kl. 6, komdu þá kl. 6.  Fátt er meira fráhrindandi en vanvirðing á tíma annarra.  Stattu við það sem þú segir.  

 

Tjáðu þig

 

Flest okkar hafa lent í því að við tjáum okkur ekki nógu skýrt og verðum síðan fyrir vonbrigðum með útkomuna.  Þegar við vitum hvað við viljum og lærum að koma því áfram til annarra þá upplyfum við meiri skilning, samúð og betra samband við þá sem skipta okkur máli. 

 

Sýndu góðvild

 

Þeir sem eru almennilegir og sýna góðvild í garð annarra hafa mun meira aðdráttarafl en þeir sem gera það ekki.  Þegar við erum góð við aðra, þá líður okkur betur (væntanlega því aðrir koma betur fram við okkur) og við látum aðra líða betur.  

 

Hugsaðu áður en þú talar

 

Stundum segjum við eitthvað sem við vildum að við hefðum sleppt.  Það bara gerist.  Áður en þú kemur skoðunum þínum á framfæri, velltu þessu fyrir þér:  Er þetta satt?  Hjálpar þetta?  Er þetta nauðsynlegt?  Er ég að sýna góðvild?

Ef allir mundu velta þessu fyrir sér áður en þeir töluðu, þá væri heimurinn aðeins öðruvísi en hann er í dag. 

 

Hjálpaðu öðrum

 

Við erum öll partur af mjög stóru samfélagi sem þarf að virka.  Ef hver og einn hugsar bara um sig, þá höktir allt - þetta er keðjuverkandi.  Samfélagið þarf að virka eins og stór, vel smurð vél.  Ef við æðum áfram og gefum engum séns í umferðinni, þá virkar samfélagið ekki eins og það gæti virkað.  Hvort sem það eru vinir okkar, fjölskylda eða ókunnugir, ef við hjálpum hvoru öðru þá verður allt svo miklu einfaldara. 

 

 

 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.