Er yfirmaður þinn mun yngri en þú?

 

 

Það getur verið erfitt að fá nýjan yfirmann sem er mun yngri en þú.  Þú hefur meiri reynslu og varst ef til vill búinn að vonast eftir stöðunni.  Ýmsar tilfinningar koma upp í hugann en mikilvægast er að halda ró sinni og fara yfir stöðuna.  

 

Í Bandaríkjunum er talið að um fjórir af hverjum tíu einstaklingum hafi yngri yfirmann.  Menntunarstig ungs fólks hefur aukist og minna er um barneignir en áður og margir vinna hörðum höndum að koma sér áfram innan fyrirtækja.  Á Íslandi er sama sagan.  Samkvæmt Hagstofunni þá hefur hlutfall háskólamenntaðra á Íslandi aukist gríðarlega síðan 2003 og mest hjá ungum konum. 

 

Peter Cappelli, prófessor og einn af höfundum bókarinnar Managing the older worker,  telur mikilvægt að sætta sig við stöðuna, því öll mótbára kemur einungis niður á þér sjálfum og lýsir sér einna helst í því að þú ert útilokaður frá stöðuhækkunum og spennandi verkefnum.  

En það getur oft reynst erfitt að sætta sig við hluti sem maður er einstaklega ósáttur við.  Niðurstöður rannsóknar sem birtist í blaðinu Journal of Organizational Behaviour sýndu fram á að flestir þeir sem voru með yngri yfirmann en þeir sjálfir sýndu fleiri neikvæðar tilfinningar eins og reiði og hræðslu en þeir sem höfðu eldri yfirmann.   

 

Fræðimenn hjá SHRM (Society for Human Resource Management) hafa tekið saman nokkra punkta sem hægt er að hafa í huga við þessar aðstæður:

 

Nefndu fílinn í herberginu

Þegar yfirmaðurinn er mun yngri en þú, finndu leið til að nefna það.  Sláðu í létt, óþvingað grín um aldursmuninn eða finndu aðra leið sem hentar þér.  Það er mikilægt að yfirmaðurinn finni að þú sért ekki á móti honum heldur styðji samvinnu.   Það gerir samskiptin nánari og þægilegri.   

 

Finndu hvað er sameiginlegt

Næsta skref er mikilvægt í öllum viðskiptasamböndum.  Finndu sameiginlegan grunn, ekki einblína á þætti sem eru öðruvísi hjá ykkur (eins og aldursmunur) heldur þá hluti sem þið eigið sameiginlega.

 

Vertu opinn fyrir breytingum

Í flestum tilfellum þegar einstaklingar verða yfirmenn mjög ungir þá eru þeir ráðnir beint inn í stöðuna.   Það þýðir að þeir hafa ekki tileinkað sér vinnubrögð fyrirtækisins og koma því með ýmsar nýjungar.  Það er mikilvægur eiginleiki í fari fólks að höndla vel breytingar og vera ekki neikvæður.  Vertu opinn fyrir hugmyndum og þakklátur fyrir að læra nýja hluti.  

 

Aðlaðaðu samskiptaformin að yfirmanninum

Yngra fólk notar í mörgum tilfellum öðruvísi samskiptaform en þeir sem eldri eru.  Þeir nota t.d. tölvupóst frekar en að hringja eða einhverskonar spjallforrit sem eldri einstaklingar hafa ef til vill ekki tileinkað sér.  Finndu út hvers konar samskiptaform nýi yfirmaðurinn er hlyntastur og notaðu það.  Einnig er gott að hafa í huga hvernig hann hefur samskiptin, kemur hann sér beint að efninu?  Ef svo er, gerð þú það líka.  

 

Ekki reyna að kenna honum allt

Þú ert kannski búinn að vinna í fyrirtækinu í 20 ár og kannt allt, á því liggur enginn vafi.  Reyndu samt að fara ekki í það hlutverk að vera alltaf að leiðbeina og kenna þínum nýja yfirmanni.  Hann er yfirmaður þinn að einhverri ástæðu, treystu því að hann geti sinnt starfi sínu.  Það er þó mjög jákvætt að hann viti að hann geti leitað til þín ef hann þarf á því að halda.  Það eru mun meiri líkur á því að hann nýti sér þekkingu þína þannig frekar en ef þú værir stöðugt að tala um hvernig þið gerðuð hlutina fyrir 10 árum síðan. 

 

Ekki reyna of mikið 

Þetta er svolítið flókið.  Það er svo margt sem þú ættir að gera til að koma þér í mjúkinn hjá honum - en samt áttu ekki að reyna of mikið.  Þetta snýst allt um meðalveginn.  Reyndu að fara eftir leiðbeiningunum hér að ofan en ekki gleyma hver þú ert!

 

Við getum ekki stjórnað því sem aðrir gera en við stjórnum því sem við gerum.  Þegar við erum ósátt í vinnu, hvort sem  það er út af ungum yfirmanni eða öðru, þá verðum við að taka ákvörðun um næstu skref.  Litlar breytingar í hugarfari okkar geta gert svo mikið.  Leggjum áherslu á okkur, ekki hvað aðrir gera eða fá 

 

 

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.  Mynd: SHRM