Ekta vetrarsúpa

Mánudagur 4. nóvember - Ekta vetrarsúpa eftir Berglind Ósk Magnúsdóttir

 

 

Nú þegar veðrið fer að kólna og myrkrið fer að aukast, þá verður alltaf erfiðara og erfiðara að halda rútínunni í hlaupunum.  Einmitt á þessum tíma er líka auðvelt að næla sér í kvefpest sem er auðvitað alls ekki eitthvað sem maður vill fá, rétt fyrir maraþon.  Góð grænmetissúpa getur gert algjört kraftaverk!

 

Hér kemur ein slík súpa sem er bragðgóð og ótrúlega holl.  Gulræturnar eru góðar fyrir meltinguna og fullar af andoxunarefnum.  Selleríið er gott fyrir liðina, vöðvana og einnig frábært fyrir meltinguna.  Laukurinn er góður gegn bólgum, virkar sem hálfgjört náttúrulegt sýklalyf og lækkar kólesterólið. 

 

Oft hefur verið sagt að sætar kartöflur séu bestu vinir hlauparans enda eru þær auðmeltanlegar og kolvetnaríkar.  Þær eru fullar af beta-karótíni og C-vítamínum og skinnið er ekki síður hollt en það sem er undir því.  Þrífið því skinnið vel og borðið það.   

 

Vetrarsúpa með allskonar ofurfæði:

 

2 msk. ólifuolía

2 stk. gulrætur, afhýddar og skornar í litla bita

2 stk. sellerí stilkar, skornir í litla bita

1 stk. gulur laukur, skorinn í bita

2 tsk. sjávarsalt

2 msk. karrý krydd

1 stk. sæt kartafla, skorin í litla bita

1 dós ósæt kókosmjólk

1 dós niðurskornir tómatar

1 dós kjúklingabaunir

3 bollar grænkál, blöðin skorin frá stilkum og skorin niður í litla bita

1 stk. límóna, kreistið safann úr henni og notið hann

Graskersfræ (ef vill)

Næringarger (ef vill)

5 bollar vatn

 

Hitið olíuna í stórum potti.  Setjið út í pottinn gulrætur, sellerí, lauk og salt og látið brúnast í ca. 5 mínútur.  Hrærið reglulega. Bætið við karrýinu og hrærið öllu saman í um 30 sekúndur.  Passa sig að láta ekki kryddið brúnast.

 

Bætið við 5 bollum af vatni, sætu kartöflunni, kókosmjólkinni, tómötunum og baununum í pottinn.  Látið sjóða, lækkið síðan hitann og látið malla með lokið á þangað til sætu kartöflurnar eru mjúkar, í um 20 mínútur.  

 

Bætið við kálinu og saltið eftir smekk.

 

Setjið í skálar og hellið límónusafa yfir súpuna (eftir smekk).  Til að auka næringu er hægt að setja örlítið af næringargeri og graskerskfæ ofan á.  

 

Graskersfræ eru rík af sinki, B-vítamínum, magnesíumi, járni og próteinum.  Það ætti því enginn að láta þessi ofurfræ framhjá sér fara  heart