Bólgur

 

Bólgur eru orðið þekkt vandamál í okkar samfélagi og margir hafa reynt að berjast gegn þeim án mikils árangurs.  Bólga er náttúruleg leið líkamans til að vinna gegn óæskilegu áreiti.  Þegar við til dæmis skerum okkur eða tognum myndast bólga sem er eðlilegur hluti af viðgerðarstarfsemi líkamans. Bólgur eru því nauðsynlegar.  Þegar bólguástand í líkamanum er orðið viðvarandi er málið orðið alvarlegra.  Bólgur eiga þátt í mörgum erfiðum sjúkdómum, svo sem liðagigt, kransæðasjúkdómum, Alzheimers-sjúkdómum og ýmsum tegundum krabbameins.  Þrálátar bólgur eru því eitthvað sem vert er að berjast á móti áður en þær ná að festa rótum.  Þar sem að ekkert okkar er eins þá upplifum við bólgur á mjög mismunandi hátt.  Bakverkir, þyngdaraukning, þunglyndi, þreyta, liðaverkir og margt fleira geta verið einkenni um bólgur í líkamanum.   

 

Það er ótrúlegt hvað líkami okkar er duglegur að láta okkur vita ef eitthvað er að hrjá hann.  Þegar við finnum fyrir sársauka þá er hann yfirleitt að láta okkur vita að eitthvað sé ekki í lagi.  Oftar en ekki þá leysum við vandamálið með því að taka inn verkja- eða bólgueyðandi lyf.  Við hlustum ekki á hann.  Í flestum tilfellum gagnast það okkur ekki til lengri tíma því rót vandans er ekki uppljóstruð.   

 

 

 

Til að losna við bólgur eða að koma í veg fyrir þær, er best að gera það á sem náttúrulegastan hátt.  Hér eru nokkrir punktar sem gott að hafa í huga:

 

 

Vatn

Vatn er okkur nauðsynlegt og mörg okkar drekka ekki nægilega mikið af því.  Eitt af grunnatriðunum ef losna á við bólgur eða að koma í veg fyrir þær er að drekka nóg af vatni.  Enginn fullorðinn ætti að drekka minna en 2 lítra á dag og gott er að drekka mun meira ef viðkomandi þjáist af þrálátum bólgum eða stundar íþróttir eða líkamlega vinnu.   Að drekka yfir 3 lítra í eina til tvær vikur getur haft mjög jákvæð áhrif á líkamann.  Þú lítur ekki bara betur út, heldur verður sykurlöngun minni, skýrari hugsun og líkaminn verður mun léttari á sér.   

 

 

Mataræði

Gott mataræði er annað grunnatriði ef losna á við bólgur.  Á Vesturlöndum er neysla á bólguörvandi fitu, þ.e. omega-6 fitusýrum, margfalt meiri en neysla á bólguhamlandi ftu, þ.e. omega-3 fitusýrum.  Fiskur og lýsi innihalda omega-3 og því bólguhamlandi.   Unnar matvörur eru allt of algengar og eru þær oft uppfullar af sykri og aukaefnum.   Grænmeti, ávextir og kryddjurtir hafa bólguminnkandi virkni. Þá má sérstaklega telja upp gulrætur, sellerí, margar tegundir af káli, fennel, grænar baunir, spínat, sætar kartöflur, epli, bláber, jarðaber, sítrónur og mun fleira.  Það sama virkar þó ekki fyrir alla og því er mikilvægt að hver og einn finni hvað honum hentar best.  Fyrir suma þá hafa tómatar t.d. bólguörvandi áhrif.  Ýmis krydd eins og engifer, karry og rósmarín eru mjög góð sem nota ætti sem oftast.  Fyrir mörgum þá er glútín mikill bólguvaldur og það sama má segja um mjólkurvörur.  Talið er þó að vörur unnar úr geitum séu betri en vörur unnar úr kúm. 

 

Dýrafita getur einnig haft áhrif á bólgumyndun og fyrir þá sem vilja halda kjötvörum inni í mataræði sínu þá er best að hafa hana óunna og fitusnauða.  Einnig er betra að velja einungis lífrænar vörur fyrir þá sem hafa tök á því.

 

Mikið hefur verið rætt um skaðsemi sykurs undanfarið enda ekki að ástæðulausu.  Talið er að sykur geti verið eins ávanabindandi og kókaín sem gerir það mun erfiðara að taka hann alfarið úr mataræðinu.  Þeir sem að vilja hafa smá sætu þegar á að gera sér glaðan dag, geta skipt sykrinum út fyrir aðra mun heilsusamlegri kosti.  Sem dæmi má nefna hrátt (raw) hunang, maple síróp (helst B), hrátt (raw) agave síróp, stevía í vökvaformi og óunninn kókossykur.

 

 

 

 

Hreinsunin

Eftir að aukin vatnsneysla og breytt mataræði hefur staðið yfir í nokkra daga þá geta komið upp ýmis einkenni sem marga þykir erfitt að komast yfir.  Það má segja að bólgurnar séu að hreinsast út og hversu mikið hver og einn finnur fyrir því fer algjörlega eftir fyrra ástandi.  Höfuðverkur, svimi, þreyta, hægðartregða, niðurgangur, heilaþoka, óreglulegur svefn, andfýla, hungur, sykurlöngun og slæm líkamslykt eru dæmi um algeng einkenni.

 

Þegar hingað er komið þá er aðalatriðið að gefast ekki upp heldur reyna frekar að aðstoða líkamann sem mest:

 

Gott heitt bað með Epsom salti eða Dead sea baðsalti.

 

Hreyfing er mikilvæg.  Hér er ekki verið að tala um löng hlaup eða þungar lyftingar heldur léttar æfingar sem að koma blóðflæðinu í gang. 

 

Góður svefn og hvíld skiptir miklu máli fyrir alla en sérstaklega núna þegar líkaminn stendur í ströngu að losa þig við bólgur. 

 

Djúpöndun er eitthvað sem allir ættu að tileinka sér.  Hugleiðsla hefur verið stunduð í gegnum aldirnar og verður alltaf vinsælli og vinsælli.  Að taka nokkrar mínútur á dag og hugleiða hjálpar bæði líkama og sál. 

 

 

Að vinna á bólgum á náttúrlegan hátt er það eina sem virkar til lengri tíma.  Það krefst mikillar vinnu og aga og það er alls ekki auðvelt - en svo algjörlega þess virði!

 

Heimildir: 

Carr, Jenny.  „Peace of Cake: The Secret to an Anti-Inflammatory Diet.” Virginia: 2017.

Unnur Guðrún Pálsdóttir og Þórunn Steinsdóttir.  „Máttur matararins: Fæða sem forvörn.“ Reykjavík: Vaka Helgafell, 2016.

 

© Lifandi Líf ehf, Berglind Ósk Magnúsdóttir. Útgefið 2018.